Sigurjón Þórðarson á með eiginkonu sinni fyrirtækið Sleppa ehf. sem rekur handfærabátinn Sigurlaugu SK 138, sem Sigurjón hefur gert út til strandveiða undanfarin ár. Síðastliðið sumar fór báturinn í 19 róðra, frá 7. maí til 16. júlí, og landaði um 17 tonnum af afla. Reiknuð aflaverðmæti sumarsins miðað við verð á fiskmörkuðum í dag eru um tíu milljónir.
Í síðustu viku var greint frá því að Sigurjón yrði formaður atvinnuveganefndar alþingis, þar sem til stendur að vinna að lagabreytingu sem ætlað er að stórefla strandveiðar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að til standi að tryggja 48 daga strandveiðitímabil á hverju sumri, þrátt fyrir að tíu þúsund tonna strandveiðikvótinn klárist áður en því lýkur.
Haukur leiðréttir þetta í færslu á Facebook í dag. Þar segir hann Sigurjón svo setja þessi „rangindi í alls konar samhengi“ til að gera orð hans tortryggileg.
Á hagsmuna að gæta sem eigandi strandveiðibáts
„Hið rétta er að ég hef sagt og tel að Sigurjón geti ekki fjallað um boðað frumvarp ríkisstjórnarinnar um auknar strandveiðar. Vegna þess að í því efni á hann á „verulegra og sérstakra“ hagsmuna að gæta sem eigandi og rekstraraðili strandveiðibáts. Ég hef hins vegar ekki sagt að hann sé vanhæfur til að veita atvinnuveganefnd Alþingis forystu eða að hann geti ekki beitt sér og fjallað um öll önnur mál sem varða sjávarútveg,“ segir Haukur í frétt sinni.
Haukur útskýrir í færslu sinni að vanhæfi varði alltaf eða nær alltaf einstök málefni sem séu til úrlausnar en ekki almenn mál eða málaflokka.
„Þannig eru allir þingmenn og einnig Sigurjón hæfur til að gegna formannsstöðu í hvaða nefnd sem er og að gegna sínum störfum yfirleitt.“
Þá segir Haukur það úr lausu lofti gripið að Lilja Rafney Magnúsdóttir eða Þórarinn Ingi Pétursson hafi almennt verið vanhæf sem formenn atvinnuveganefnda því þau hafi haft tengingu við landbúnað og sjávarútveg.
Ekki óeðlilegt að kalla inn varamann
„Hins vegar hafði Þórarinn Ingi sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta varðandi sameiningu afurðastöðva – það er að mínu viti eina frumvarpið sem hann hefði ekki átt að fjalla um. Og ekkert óeðlilegt við að menn kalli inn varamann þegar þannig stendur á. Hliðstæð aðstaða gæti myndast hjá Sigurjóni,“ segir Haukur.
Þá bendir hann á í lokin að hann hafi í raun ekki talað um vanhæfi, heldur mögulegt brot á siðareglum Alþingis.
„Það þarf að átta sig á því að alþingismenn setja jafnan lög sem til framfara horfa og bæta hag allra landsmanna. Meðal annars þeirra sjálfra. Það veldur að sjálfsögðu ekki vanhæfi, þeir geta breytt þjóðfélaginu til batnaðar eins og þeir vilja, t.d. varðandi almannatryggingar. Mögulegt brot á siðareglum Alþingis kemur ekki upp á fyrr en um verulega og sérstaka hagsmuni – umfram aðra – er að ræða,“ segir Haukur að lokum.