„Við höfum haft afskipti [af kosningum í Bandaríkjunum], höfum áfram afskipti og munum halda því áfram. Vandlega, hnitmiðað og markvisst og á okkar hátt, eins og við kunnum að gera,“ sagði Prigozhin í yfirlýsingu sem fyrirtæki hans birti í morgun, samkvæmt frétt Reuters.
Hann bætti við að við þessa „hnitmiðuðu aðgerð“ myndu hann og hans fólk „fjarlægja bæði nýrun og lifrina“, án þess þó að fara nánar út í hvað hann ætti við með því.
Yfirlýsingin var til komin vegna fyrirspurnar frá rússneskum miðli.
Prigozhin er kallaður „kokkur Pútíns“ vegna umfangsmikilla samninga sem hann hefur gert við rússneska ríkið. Hann framleiðir meðal annars mat fyrir skólabörn og hermenn í Rússlandi.
Hann er frá Pétursborg og sat á árum áður í fangelsi fyrir ýmsa glæpi.
Á tíunda áratug síðustu aldar opnaði hann veitingastaði í Pétursborg. Þar á meðal veitingastaðinn New Island Restaurant. Pútín hefur snætt þar með erlendum erindrekum og stjórnmálamönnum eins og Jacques Chirac, fyrrverandi forseta Frakklands, og George W. Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
Rekur „Skuggaher Rússlands“
Auðjöfurinn játaði fyrr í haust að reka málaliðahópinn Wagner Group, sem lýst hefur verið sem „skuggaher Rússlands“. Wagner er nokkuð umsvifamikill málaliðahópur og með viðveru í Mið-Austurlöndum, Afríku, Úkraínu og víðar. Málaliðar hópsins hafa margsinnis verið sakaðir um ýmis ódæði.
Hann hefur líka lengi verið sakaður um afskipti af kosningum í Bandaríkjunum. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna lýsti því yfir í sumar að hver sem gæti veitt upplýsingar sem leiddu til handtöku Prigozhins myndi fá tíu milljónir dala í verðlaun.
Þessi afskipti Prigozhins af kosningum í Bandaríkjunum má að mestu rekja til svokallaðrar „Tröllaverksmiðju“ sen hann er sagður hafa fjármagnað um árabil. Sú verksmiðja, sem kallast Internet Research Agency, vakti mikla athygli í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016. Robert Mueller, sérstakur saksóknari Dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, ákærðir þrettán Rússa og þrjú fyrirtæki í tengslum við rannsókn hans.
Ákæran lýsti stóru samsæri þar sem fólkið meðal annars ákært fyrir samsæri, fjársvik og auðkennisþjófnað. Þau voru sökuð um að nýta samfélagsmiðla til að ýta undir deilur í Bandaríkjunum og styðja við framboð Donalds Trumps.
Starfsmenn IRA lýstu sjálfir afskiptum sínum af kosningunum í Bandaríkjunum sem „upplýsingahernaði“.