Erlent

Refsi­dómi Diddy verði á­frýjað

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Diddy var dæmdur í fjögurra ára og tveggja mánaða fangelsi auk sektargreiðslu.
Diddy var dæmdur í fjögurra ára og tveggja mánaða fangelsi auk sektargreiðslu. AP/Richard Shotwell

Bandaríski tónlistar- og athafnamaðurinn Sean Combs, betur þekktur sem P Diddy, hyggst áfrýja fangelsisdómnum sem hann hlaut í byrjun október fyrir vændisstarfsemi. Diddy hlaut fimmtíu mánaða fangelsisdóm og gert að greiða 500 þúsund Bandaríkjadala sektargreiðslu fyrir brot í tveimur ákæruliðum er tengjast flutningi fólks í tengslum við vændisstarfsemi. Hann var sýknaður af öðrum ákæruliðum í sumar.

New York Times greinir frá því að verjendateymi Combs hafi nú upplýst áfrýjunardómstól um að hann muni leitast við að fá ákvörðun kviðdóms í New York hnekkt. Verjendur hans hafi í gær skilað inn svokallaðri tilkynningu um áfrýjun til Alríkisdómstóls í New York en frekari gögn séu væntanleg þar sem ýtarlegri rökstuðningur fyrir væntanlegri áfrýjun er útlistaður. Áfrýjun málsins myndi fara fyrir dóm skipaðan þremur dómurum áfrýjunardómstóls.

Hinn 55 ára gamli Combs hefur dúsað í fangelsi allt frá því hann var ákærður í fyrra. Combs var í september á síðasta ári ákærður í fimm ákæruliðum fyrir mansal, skipulagða glæpastarfsemi og fólksflutninga í tengslum við vændisstarfsemi. Tónlistarmaðurinn var í sumar sýknaður af þremur ákæruliðum, en sakfelldur í tveimur ákæruliðum af fimm fyrir að flytja fólk til vændiskaupenda. Refsing hans var svo kveðin upp í byrjun þessa mánaðar.

Áður en refsing var kveðin upp fóru lögfræðingar Combs fram á að refsing hans yrði að hámarki fjórtán mánuðir, en þar af yrðu þeir tólf mánuðir sem hann hafi þegar setið í varðhaldi dregnir frá refsingu. Ákæruvaldið fór hins vegar fram á ellefu ára og þriggja mánaða fangelsi yfir tónlistarmanninum en að endingu hljóðaði dómurinn upp á fjögur ár og tvo mánuði auk sektar.

Nú stefnir í að málið komi aftur til kasta dómstóla að því er fram kemur í umfjöllun New York Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×