Erlent

Komust á brott með átta ó­metan­lega skart­gripi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Safninu var lokað í kjölfar ránsins.
Safninu var lokað í kjölfar ránsins. epa

Búið er að finna tvo skartgripi sem var stolið úr Louvre í París í morgun. Alls voru níu hlutir teknir en þjófanir komust á brott með átta þeirra. Málið er til rannsóknar.

Brotist var inn í Louvre-safnið stuttu eftir að það opnaði klukkan níu að staðartíma í morgun og var safninu lokað í kjölfarið.

Sjá einnig: Louvre-safninu lokað vegna ráns

Fjórir þjófar komust inn í safnið með stigabíl og brutu síðan glugga. Tveir þjófanna voru klæddir eins og starfsmenn í gulum vestum. Þeir framkvæmdu glæpinn á fjórum mínútum og komust á brott á vespum. Á myndbandi sem Le Parisien hefur undir höndum sést einn þjófanna með slípirokk í hendi að brjóta gler utan um munina.

Lögregla fann síðar á vettvangi gul vesti, tvo slípirokka, hanska, talstöðvar og teppi. Þjófarnir komu einnig sjálfir með stigabílinn sem þeir notuðu til að komast inn í safnið. Hann hefur verið fjarlægður af lögreglu.

Bíllinn sem þjófarnir notuðu til að komast inn.epa

Alls voru níu hlutir úr skartgripasafni Napóleons og konu hans Eugenie keisaraynju teknir en þjófarnir komust á brott með átta þeirra. Lögregla hefur málið til rannsóknar.

Rachida Dati, menningarmálaráðherra Frakka, sagði skartgripina vera ómetanlega. Þeirra á meðal var krúna Eugenie sem fannst skömmu síðar brotin og brjóstnál sem hún átti einnig. Þjófarnir tóku þá kórónu, hálsmen og eyrnalokka sem voru í eigu drottninganna Marie-Amélie og Hortense, hálsmen og eyrnalokka sem Marie-Louise átti og að lokum aðra brjóstnál.

Síðast var brotist inn í Louvre-safnið 1998 þegar málverki eftir Camille Corot var rænt. Þar áður var heimsfræga verkinu Mona Lisa stolið árið 1911. Safnið er eitt það frægasta í heimi og geymir meðal annars heimsfræga listaverkið Mona Lisa. Tæplega níu milljónir heimsóttu safnið árið 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×