Babariko var talinn líklegasti keppinautur Alexanders Lúkasjenka forseta þegar hann bauð sig fram í forsetakosningunum í ágúst. Hann er fyrrverandi bankastjóri rússneska bankans Belgazprombank.
Hvítrússnesk yfirvöld handtóku hann í júní í fyrra og varð það kveikjan að mótmælum þúsunda stuðningsmanna hans á götum úti, að sögn AP-fréttastofunnar. Babariko hefur dúsað í fangelsi frá því að hann var handtekinn. Hæstiréttur landsins sakfelldi hann í dag fyrir mútuþægni og peningaþvætti.
Lúkasjenka, sem hefur verið við völd frá 1994, lýsti yfir öruggum sigri í forsetakosningunum en stjórnarandstaðan neitaði að viðurkenna úrslitin. Hún telur að stórfelld kosningasvik hafi átt sér stað.
Í kjölfar kosninganna brutust út fjölmennustu mótmæli í stjórnartíð Lúkasjenka sem stóðu yfir í fleiri vikur. Lét forsetinn berja mótmælin niður af mikilli hörku. Tugir þúsunda voru handteknir og þúsundir beitt ofbeldi.

Eftir að stjórn Lúkasjenka ruddi Babariko úr vegi tóku þrjár konur við forystuhlutverki í stjórnarandstöðunni, þær Maria Kolesnikova, bandamaður hans, Svetlana Tsikhanouskaja og Veronika Tsepkalo. Kolesnikova er nú í fangelsi, Tsepkalo flúði land og Tsikhanouskaja sömuleiðis. Sú síðastnefnda bauð sig fram gegn Lúkasjenka eftir að eiginmaður hennar var handtekinn.
Tsikhanouskaja, sem heimsótti Íslands í boði íslenskra stjórnvalda í síðustu viku, sagði að refsing Babariko væri sturluð.
„Stjórnin gerir allt til þess að drepa niður sérhverja hugsun sem ber minnstu líkindi við von og trú. En fyrir Viktor, og þúsundir saklauss fólks í fangelsi er það vonin í hjörtum okkar sem skiptir máli,“ sagði hún, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Bandaríska sendiráðið í Minsk fordæmdi sakfellingu Babariko og kallaði réttarhöldin fals. Þau sýndu að stjórn Lúkasjenka léti ekkert stöðva sig í að hanga á völdum í landinu.