Innlent

Mynd­skeiðið segi ekki alla söguna

Eiður Þór Árnason skrifar
FotoJet (36)

Eigandi bifreiðar sem keyrði utan í hjólreiðamann við Spöngina í dag segir myndskeið af atvikinu ekki segja alla söguna. Ekki hafi verið ætlunin að keyra svo nálægt hjólinu og hjólreiðamaðurinn hafi áður sýnt árásargirni.

Rúnar Þór Vilhjálmsson leigubílstjóri er eigandi bílsins en hann segir eiginkonu sína hafa verið við stýrið þennan afdrifaríka eftirmiðdag.

„Hún vill ekkert tjá sig neitt meira en rétt skal vera rétt,“ segir hann í samtali við fréttastofu áður en hann byrjar að rekja atburðarásina.

„Hún er að keyra á eftir honum og hann er eitthvað að dóla þarna á miðri götu og er þar hægur. Hún flautar á hann og hann gaf henni þá fokkmerki og hún nær að fara fram fyrir hann og stoppa við hringtorg.“ Þá hafi hann hjólað upp að bílnum og farið í þrengsli milli snjóskafls og bílsins. Næst hafi eiginkona hans opnað bílrúðuna og þau átt orðaskipti.

„Þegar hann kemur upp að bílnum þá byrjar hann að sparka og berja í bílinn,“ bætir Rúnar við. Hún hafi í kjölfarið tjáð honum að hún ætlaði að hringja á lögregluna og hann þá teygt sig inn í bílinn og reynt að taka af henni símann.

„Það er fyrst þegar hún rýkur af stað þaðan að hún þrengir svona harkalega að honum enda bara skelfingu lostin,“ segir Rúnar og vísar til augnabliksins sem sést vel á áðurnefndu myndskeiði.

Hafi skemmt bílinn

Rúnar staðhæfir jafnframt að hjólið hafi ekki farið undir bílinn heldur klemmst milli stigbretta á bílnum og snjóskaflsins.

„Hann náði hjólinu burt og hjólaði í burtu. Það var ekkert að hjólinu.“ Á þessum tímapunkti hafi konan hans verið búin að hringja á lögregluna en hjólreiðamaðurinn horfið af vettvangi.

Hann fullyrðir að hann hafi stórskemmt bílinn. Rúnar segir að lögreglan hafi haft samband í kjölfarið og spurt konuna sína hvort hún vilji kæra hjólreiðamanninn. Hún hafi ekki tekið ákvörðun í þeim efnum.

Rúnar upplifir málið að einhverju leyti sem storm í vatnsglasi en segir atvikið vissulega líta illa út á myndskeiðinu sem er í dreifingu.

„Það er eins og hún sé ökuníðingur. En það er ekki rétt. Hún að vísu rauk af stað skelfingu lostin þegar hann var búinn að fara inn um gluggann hjá henni að reyna að rífa af henni símann þegar hún er að hringja á lögguna.“ Myndskeiðið segi þrátt fyrir það ekki alla söguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×