Erlent

Bandidos-bifhjólagengið bannað í Dan­mörku

Kjartan Kjartansson skrifar
Norrænir félagar í Bandidos við útför fallins félaga árið 1999. Hjaðningarvíg urðu á milli þeirra og Vítisengla í Skandinavíu á 10. áratug síðustu aldar.
Norrænir félagar í Bandidos við útför fallins félaga árið 1999. Hjaðningarvíg urðu á milli þeirra og Vítisengla í Skandinavíu á 10. áratug síðustu aldar. Vísir/EPA

Dómstóll í Danmörku lýsti bifhjólagengið alræmda Bandidos ólöglegt og skipaði fyrir um að það skyldi leyst upp í dag. Mismunandi deildir gengisins myndi eina heild sem sé skipulögð glæpasamtök.

Danskir saksóknarar kröfðust þess að samtökin yrðu leyst upp í samræmi við ákvæði stjórnarskrá um samtök sem æsi til ofbeldis. Til þess þurftu þeir að sýna að þó að Bandidos sé að nafninu til fjöldi misstórra hópa myndi þeir ein skipulögð samtök.

Meðlimir Bandidos hafa verið sakfelldir fyrir fjölda ofbeldisverka, þar á meðal morð, tilraunir til manndráps og líkamsárásir í gegnum tíðina. Danska lögreglan lagði tímabundið bann við starfsemi samtakanna í fyrra.

Danska ríkisútvarpið segir að dómurinn í dag þýði að yfirvöld leggi hald á alla muni sem tengist Bandidos, þar á meðal vesti og annan einkennisklæðnað samtakanna.

Lögmaður Bandidos segir að dómnum verði áfrýjað og er málið sagt geta velkst lengi enn um fyrir dönskum dómstólum.

Peter Hummelgaard, dómsmálaráðherra, fagnar niðurstöðunni. Hún sé mikilvægt skref í baráttunni gegn glæpagengjum og skipulagðri glæpastarfsemi almennt.

„Samkomufrelsi var ekki skapað til að vernda glæpagengi. Þess vegna tel ég að grípa ætti til aðgerða til þess að leysa upp önnur glæpagengi ef yfirvöld telja að grundvöllur sé til þess,“ skrifaði ráðherrann á samfélagsmiðli.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×