Erlent

Ísraels­her gerir á­rás á Gasa

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, fyrirskipaði árásirnar.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, fyrirskipaði árásirnar. EPA

Ísraelsher hefur skotið þremur flugskeytum í átt að Gasaströndinni í kjölfar skipunar forsætisráðherra Ísraels um að hefja árásir á ný. Ísrael sakar Hamas um að brjóta gegn vopnahlé.

Fyrr í dag fyrirskipaði Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, að her ríkisins ætti að gera „kröftugar“ árásir á Gasaströndina þar sem að Hamas-liðar hafi ekki skilað réttum líkamsleifum. Þá sakar utanríkisráðuneyti Ísraels Hamas um að sviðsetja leit að líkum gísla í húsarústum á Gasa.

BBC hefur eftir staðarmiðlum á svæðinu að Ísraelsher fylgdi eftir fyrirskipunum forsætisráðherrans og skaut að minnsta kosti þremur flugskeytum í átt að Gasa. Þá herma heimildir Reuters að tveir hafi látist í árásunum og fjórir slasast.

Flugskeyti höfnuðu bæði í Sabra-hverfinu og nálægt Shifa-sjúkrahúsinu sem er stærsta sjúkrahúsið á norðurhluta Gasa. 

Vopnahlé milli Hamas og Ísraela tók gildi þann 10. október eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti lagði til tuttugu punkta áætlun um frið. Ísraelar samþykktu áætlunina en Hamas einungis að hluta til. Vopnahléið hefur staðið völtum fótum þar sem báðar hliðar saka hvor aðra um að brjóta gegn því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×