Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að með frumvarpi um útlendinga ætluðu stjórnvöld hér að fara í þveröfuga átt en stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum varðandi móttöku hælisleitenda. Hér ætti að tryggja þeim sömu þjónustu og kvótaflóttamenn fengju

„Það ætti þá að ýta enn frekar undir fjölgunina hér. En eins og hæstvirtur ráðherra kannski veit eru umsóknir um hæli nú sexfalt fleiri hér á landi en í Danmörku og Noregi hlutfallslega,“ sagði Sigmundur Davíð.
Forsætisráðherra Danmerkur hefði sagt markmið stefnunnar þar að enginn sækti um hæli þar í landi og aðeins yrði tekið á móti kvótaflóttamönnum.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagðist ekki viss um hversu raunhæft það væri að stefna að því að enginn sækti um hæli hér á landi.

„Ég helt að þjóðir heims og hér í okkar heimshluta værum sammála um að við vildum samræma regluverk okkar sem mest og vera með mannúðlega stefnu,“ sagði Bjarni. Sem snérist um að bjóða fólki inn í samfélagið sem kæmi frá stríðshrjáðum svæðum og væri á flótta frá einhverjum hörmungum og gæti ekki snúið til baka.
Bjarni sagði málsmeðferðartímann hins vegar verið allt of langan hjá allt of mörgu fólki sem sækti hér um hæli sem í sjálfu sér væri mannréttindabrot.
Formaður Miðflokksins sagði nýja stefnu Dana einmitt ætlað að bæta forgangsröðunina varðandi móttöku flóttamanna.
„Forsætisráðherra Danmerkur talaði einmitt um að stefnubreytingin væri mun mannúðlegri heldur en sú aðferð sem íslensk stjórnvöld fylgja. Með nýju stefnunni væri hægt að hjálpa þeim sem þyrftu mest á hjálpinni að halda,“ sagði Sigmundur Davíð.
Bjarni sagðist trúa á alþjóðlegar lausnir.
„Ég styð ekki breytingar sem leiða til þess að við sköpum hér, hvað eigum við að segja, lægsta þröskuldinn. Stærsta hliðið fyrir þann ótrúlega fjölda fólks sem er að leita sér að nýjum heimkynnum,“ sagði Bjarni. Íslendingar hefðu líka þá skyldu að læra af reynslunni.
„Ég sé fyrir mér að við eigum að gera það sem að okkur snýr með myndarlegum hætti. Við höfum ofboðslega mikið undir því og eigum undir því sem samfélag að hjálpa þeim sem eru komnir til landsins og hafa fengið samþykkta stöðu sem alþjóðlegir flóttamenn eða hafa komið hingað í kvótaflótta prógrammi. Að þessu fólki takist vel til við að aðlagast samfélaginu,“ sagði Bjarni Benediktsson.