De Bru­yne kvaddur með stæl

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pep Guardiola faðmar De Bruyne þegar sá síðarnefndi kemur af velli í kvöld.
Pep Guardiola faðmar De Bruyne þegar sá síðarnefndi kemur af velli í kvöld. EPA-EFE/ASH ALLEN

Belgíski miðjumaðurinn Kevin de Bruyne lék í kvöld sinn síðasta heimaleik fyrir Manchester City. Það var því við hæfi að liðið sýndi sínar bestu hliðar þó De Bruyne sjálfur hafi klikkað á algjöru dauðafæri.

Heimamenn í Man City komust yfir þegar tæpur stundarfjórðungur var liðin. Omar Marmoush fékk þá sendingu frá Mateo Kovačić og lét vaða af löngu færi. Boltinn sveif eins og hann hafði aldrei svifið áður og söng í netinu með viðkomu í samskeytunum. Stórkostlegt mark og staðan orðin 1-0.

Tíu mínútum síðar fékk De Bruyne fullkomið tækifæri til að kveðja með stæl þegar hann þurfti bara að renna boltanum í netið af stuttu færi. Það var sem boltinn skoppaði á síðustu stundu og tókst Belganum að setja boltann í þverslána þegar það var auðveldara að skora.

Bernardo Silva tvöfaldaði forystuna svo á 38. mínútu með góðri afgreiðslu eftir undirbúning İlkay Gündoğan. Staðan 2-0 í hálfleik.

Á 67. mínútu fékk Kovačić beint rautt spjald þegar hann braut af sér sem aftasti maður. Stuttu síðar var De Bruyne tekinn af velli og varnartengiliðurinn Nico settur inn í hans stað.

De Bruyne kveður Etihad.EPA-EFE/ASH ALLEN

Rauða spjaldið hafði á endanum ekki mikil áhrif á leikinn þar sem Lewis Cook fékk rautt spjald í liði gestanna eftir glórulausa tæklingu á 74. mínútu.

Þegar ein mínúta var til loka venjulegs leiktíma bætti varamaðurinn Nico við þriðja marki heimamanna með góðu skoti fyrir utan teig. Í uppbótartíma minnkaði Daniel Jebbison muninn og lokatölurá Etihad-vellinum í Manchester 3-1 heimaliðinu í vil.

Sigurinn lyftir Man City upp í 3. sætið með 68 stig, tveimur meira en Newcastle United, Chelsea og Aston Villa þegar ein umferð er eftir af tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni. Bournemouth er í 11. sæti með 53 stig.

Hvað hinn 33 ára gamla De Bruyne varðar þá á hann einn leik eftir sem leikmaður Manchester City. Áratugur er síðan hann gekk í raðir félagsins og verður hans minnst sem eins besta miðjumanns í sögu enska boltans. 

Hann hefur spilað 421 leik í treyju Man City, skorað 108 mörk og gefið 177 stoðsendingar. Hann hefur sex sinnum staðið uppi sem Englandsmeistari, fimm sinnum hefur deildarbikarmeistari, einu sinni bikarmeistari og einu sinni Evrópumeistari. 

Þá var ekki að sjá að bikarmeistarar Crystal Palace hefðu gleymt sér í gleðinni en þeir unnu Wolves 4-2 í kvöld. 

Emmanuel Agbadou kom Úlfunum yfir en Eddie Nketiah svaraði með tveimur mörkum fyrir heimaliðið, staðan 2-1 í hálfleik. Ben Chilwell bætti við þriðja marki Palace áður en Jorgen Strand Larsen minnkaði muninn fyrir gestina. 

Eberechi Eze gulltryggði svo sigurinn undir lokin og bikarmeistararnir því með 52 stig í 12. sæti. Úlfarnir eru í 14. sæti með 41 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira