Enski boltinn

Man City sagt hafa lagt fram „mega“ til­boð í Wirtz

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
En nennir Wirtz til Manchester?
En nennir Wirtz til Manchester? EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL

Manchester City er sagt hafa lagt fram tilboð í hinn 22 ára gamla Florian Wirtz, leikmann Bayer Leverkusen. Sá er talinn hinn fullkomni arftaki Kevin de Bruyne.

Það er þýski miðillinn Bild, sem greinir frá, ekki kemur þó fram hversu hátt tilboðið er. Man City hefur að því virðist ákveðið að stökkva til eftir að orðrómur þess efnis að Wirtz vildi helst fara til Bayern München varð hávær.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Wirtz spilað 196 mótsleiki fyrir Leverkusen. Hann átti stóran þátt í frábæru gengi liðsins á síðustu leiktíð þegar það stóð uppi sem Þýskalandsmeistari án þess að tapa leik. Jafnframt vann liðið þýska bikarinn og fór alla leið í úrslit Evrópudeildar.

Í leikjunum 196 hefur Wirtz skorað 57 mörk og gefið 65 stoðsendingar. Leverkusen er sagt vilja fá 150 milljónir evra – tæplega 22 milljarða íslenskra króna – fyrir leikmanninn sem er samningsbundinn félaginu til sumarsins 2027.

Wirtz virðist ekki eini leikmaðurinn á förum frá Leverkusen þar sem Liverpool hefur verið orðað við hægri bakvörðinn Jeremie Frimpong og fyrirliðinn Jonathan Tah hefur verið orðaður við Bayern og fjölda liða á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×