Enski boltinn

Róm­verjar vilja Nuno sem gæti verið ó­sáttur í Skíris­skógi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nuno gæti verið á leið til Rómar.
Nuno gæti verið á leið til Rómar. EPA-EFE/PETER POWELL

Árangur Nuno Espiríto Santo með Nottingham Forest hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Roma er sagt vilja fá Portúgalann til að taka við gamla brýninu Claudio Ranieri sem sneri til baka og bjargaði sínu uppáhalds félagi eftir að hafa sagt skilið við þjálfun.

Árangur Forest hefur verið ekkert annað en undraverður. Eftir að liðinu var spáð bullandi fallbaráttu og jafnvel falli þá hefur liðið úr Skírisskógi verið í baráttu um Meistaradeildarsæti nær allt tímabilið.

Það virðist þó sem Forest þurfi að sætta sig við aðra af minni Evrópukeppnunum en engu að síður magnaður árangur hjá liðinu. Nú greinir Foot Mercato frá því að Roma ætli að nýta sér það að eigandi Forest, Evangelos Marinakis, hafi látið Nuno heyra það út á velli og sækja hann sem næsta þjálfara liðsins.

 Rómverjar hafa verið í brasi með þjálfara síðan José Mourinho var látinn fara og þurfti Claudio Ranieri að snúa aftur til Rómar eftir að hafa sagt skilið við þjálfun þar sem liðið var í bullandi fallbaráttu.

Hinn margreyndi Ranieri gerði gott betur en að bjarga Roma frá falli. Liðið er nú í 5. sæti deildarinnar og gæti enn náð Meistaradeildarsæti fari svo að Rómverjar vinni sinn leik í lokaumferðinni og Juventus tapi stigum.

Hvort hinn 51 ára gamli Nuno sé tilbúinn að skipta Nottingham út fyrir Róm verður að koma í ljós en hann hefur ekki verið hræddur við áskoranir á þjálfaraferli sínum til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×