Í Hagsjánni kemur fram að meðalfjölgun erlendra ferðamanna hafi verið 25,2% á árunum 2011-2017 og fimmfaldaðist þar með fjöldi erlendra ferðamanna sem sótti Ísland heim á tímabilinu.
Japönum fækkaði mest og Bandaríkjamenn bjarga málunum
Þá eru sautján þjóðir flokkaðar og taldar sérstaklega inn í landið. Þar af fjölgaði ferðamönnum frá sex löndum en fækkaði hjá hinum ellefu.Hlutfallslega fækkaði Japönum mest á síðasta ári eða um 14,6% frá árinu áður. Næstmesta fækkunin var hjá Finnum, 12,9% og Svíum, 12,3%, en ferðamönnum frá öllum Norðurlandaþjóðunum fækkaði milli ára. Þá fækkaði Norðmönnum um 8,8%.
Mesta hlutfallslega fjölgunin varð hjá Pólverjum en þeim fjölgaði um 38% milli ára. Næstmesta fjölgunin varð hjá Rússum, 20,8%, og í þriðja sæti voru Bandaríkjamenn með fjölgun upp á 20,5%. Bandaríkjamönnum hefur nú fjölgað milli ára tíu ár í röð og hefur fjöldi þeirra sautjánfaldast frá árinu 2008. Bandaríkjamenn skýra jafnframt heildarfjölgun ferðamanna að langmestu leyti, að því er segir í hagsjánni, en hefði þeirra ekki notið við væri heildarfjölgunin aðeins 0,1%.
Þá voru Bandaríkjamenn flestir erlendra ferðamanna árið 2018 líkt og síðustu ár en alls komu nær 700 þúsund bandarískir ferðamenn til landsins í fyrra. Nam hlutfall Bandaríkjamanna í heildarfjölda ferðamanna 30% en næstir á eftir voru Bretar með um 400 þúsund færri ferðamenn en Bandaríkin, eða 298 þúsund.
Mikil breyting hefur jafnframt orðið á samsetningu ferðamanna á þessari öld. Sem dæmi voru Norðurlandabúar 26,2% ferðamanna árið 2003 en hlutfallið var 7,1% á síðasta ári. Þjóðverjar voru tæplega 12% ferðamanna árið 2003 en hlutfallið var 6% á síðasta ári.