
Að sögn G. Péturs var blikkljósum fjölgað við einbreiðar brýr í haust og verið er að vinna að rannsókn á hvar ferðamenn stansa helst á vegum. Þá verður farið í átak í sumar vegna yfirborðsmerkinga. „Við erum með fjárveitingar fyrir vetrarþjónustuna eins og á meðalvetri en við erum búin að vera að hífa þjónustuna upp. Ef það á að bæta í þjónustuna þarf meira fé,“ segir hann. Stutt er síðan fréttir voru sagðar af um 40 bílum sem sátu fastir á Reynisfjalli, þar sem langflestir ökumenn voru frá Asíu.
Í fjárlögum sést að framlög til Vegagerðarinnar voru tæpir 24 milljarðar í ár en verða 100 milljónum króna lægri á næsta ári. Er það ríflega 13 milljörðum króna lægri upphæð en samþykkt var í samgönguáætlun. Að mati Samtaka iðnaðarins vantar um 10 milljarða króna árlega í vegakerfið og uppsöfnuð þörf er orðin að minnsta kosti 60 milljarðar króna.
Í meistararitgerð Sigríðar Lilju Skúladóttur í umhverfisverkfræði frá Háskóla Íslands í desember kemur fram að þau akstursskilyrði sem erlendum ferðamönnum þótti erfiðast að keyra við tengdust malarvegum, veðri og ástandi vega. Verstu vegirnir voru á Aust- og Vestfjörðum. Rannsóknin byggðist á tæplega 1.100 svörum erlendra ferðamanna.

„Það hefur borið á því að kínverskir ferðamenn hafa ekki verið nægilega vel að sér. Ég veit að yfirvöld hafa verið að skoða einhverjar leiðir því að ef Íslendingur ætlar að keyra um í Kína þá þarf hann að fara í sérstakt ökupróf. Þetta er að einhverju leyti spurning um fræðslu og upplýsingar. Landslagið getur verið fljótt að breytast ef ferðamenn telja að það stafi ógn af því að ferðast um landið. Það þýðir ekki að skófla fólki inn í bíl og segja bara góða ferð. Það þarf að gera ráðstafanir og huga að innviðum.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.