Bílastæðagjaldið verður 500 krónur á fólksbíl, 750 krónur á jeppa og hópferðabíla fyrir 8 farþega, 1.500 krónur fyrir 9 til 14 manna bíla og loks 3.000 krónur fyrir 15 farþega eða fleiri. Gjaldið, sem veitir heimild til að leggja í einn sólarhring, verður innheimt á þremur stöðum; á Hakinu, á Þingplani neðan Almannagjár og á gamla Valhallarreitnum.

Óljóst er hvenær gjaldtakan hefst. Ólafur segir gjaldmæla hafa verið pantaða en að það taki minnst fjórar til sex vikur að fá þá afhenta og síðan eigi eftir að setja þá upp. Um 50 milljónir króna eru sagðar fara í rekstur og viðhald bílastæða á Þingvöllum á ári. Vonast er til að nýja gjaldið skili 40 til 50 milljónum.
Hægt er að leggja á ýmsum öðrum stöðum í þjóðgarðinum en á áðurnefndum stæðum, til dæmis á útskotum og vegaröxlum þar sem ekki verður innheimt gjald. Að sögn þjóðgarðsvarðar hefur málið verið lengi í undirbúningi bæði af tæknilegum ástæðum og vegna samráðs sem menn vilja hafa um gjaldtökuaðferðina.
Annað fyrirkomulag verður á innheimtu gjalds fyrir rútur en einkabíla. „Þar verðum við með mann sem tekur við gjaldinu en við eigum eftir að útfæra það í smáatriðum. Við ætlum að ræða við ferðaþjónustuaðila hvernig er hentugast að gera þetta,“ segir Ólafur.

„Mér finnst mikilvægt að þetta sé unnið í góðu samstarfi við ferðaþjónustuna og með þeim fyrirvara sem greinin þarf til þess að geta lagað sig að breyttu umhverfi. Varðandi gjaldið á Þingvöllum þá hefur það samtal við okkur ekki farið fram,“ segir Helga Árnadóttir.