„En það er alltaf eins og það sé erfiðara að setja smáaura í þetta en allt annað,“ segir Brynjar. Menn geti sett peninga í önnur verkefni sem kosta jafnvel hundruð milljóna.
Brynjar segir að miðað við þau kærumál sem berist ríkissaksóknara, og miðað við allt það eftirlitshlutverk sem embættið á að hafa, meðal annars með hlerunum og hlustunum og aðgerðum lögreglu, séu verkefnin varla vinnandi fyrir embættið.
„Við vitum að mál eru að deyja vegna tíma og það er búið að vera lengi. Og í raun og veru hefur embættið ekki sinnt þessu eftirlitshlutverki sínu lengi,“ segir Brynjar. Menn hafi bara horft fram hjá því af því að embættið hafi náð að halda þokkalega utan um stóru málin. Hann segir að það þyrfti tiltölulega lítinn pening til að koma málum í lag hjá embættinu.

Brynjar segir að ríkissaksóknari sé ekki eini angi réttarkerfisins sem sé fjársveltur. Þeir dómstólar sem hann þekki til hafi ekki einu sinni efni á að kaupa reiknivél fyrir dómarana.
„Það er ekkert afgangs fyrir utan launin og húsnæðið. Og menn eru svolítið við frumstæðar aðstæður við þetta,“ segir hann. Hann leggur áherslu á að réttarkerfið sé kerfi sem ekki megi klikka. „Þú þarft að treysta því að fá gott fólk í þetta. Það er ekki sama hver vinnur þetta. Og þetta er auðvitað alveg gífurlega mikilvægt. En samt eru menn alltaf á horriminni og rúmlega það,“ segir Brynjar.