Skoðun

Ríkið á ekki að vasast í samkeppni

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Í sérstakri umræðu um málefni ríkisfyrirtækisins Íslandspósts á Alþingi í síðustu viku kom ýmislegt áhugavert fram.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra, sem hefur póstmál á sinni könnu, lýsti því þar yfir að hún teldi að afnema ætti einkarétt ríkisins, þ.e. Íslandspósts, á bréfasendingum. Jafnframt ætti að stefna að því að selja fyrirtækið. Þá lýsti ráðherra því afdráttarlaust yfir í tvígang að hún teldi að ríkið ætti ekki að vera að „vasast í samkeppnisrekstri“.

Hún svaraði hins vegar ekki skýrt þeirri spurningu Guðmundar Steingrímssonar, málshefjanda umræðunnar, hvort hún teldi ekki að aðgreina þyrfti betur í rekstri fyrirtækisins annars vegar samkeppnisreksturinn og tryggja að hann væri í samræmi við samkeppnislög og heilbrigt rekstrarumhverfi og hins vegar einkaleyfis- og alþjónusturekstur Íslandspósts. Ráðherra vísaði til þess að ákvarðanir um skipulag Íslandspósts væru á hendi fjármálaráðherra.

Staðreyndin er hins vegar sú að Íslandspóstur hefur á undanförnum árum troðið sér inn á ýmsa markaði sem eru misjafnlega lítið skyldir grunnhlutverki fyrirtækisins, að veita almenningi póstþjónustu. Karl Garðarsson alþingismaður rakti í umræðunni að Íslandspóstur ætti prentsmiðjuna Samskipti ehf. að öllu leyti, enn fremur Gagnageymsluna ehf., ePóst og fasteignafélagið Trönur. Þá ætti fyrirtækið tvo þriðjuhluta í flutningsmiðluninni Frakt ehf. og minni hluti í öðrum fyrirtækjum í óskyldum rekstri. Þá stundar Íslandspóstur ýmsa samkeppni við einkaaðila í eigin nafni, til dæmis umfangsmikla sælgætis-, ritfanga- og minjagripasölu í pósthúsum.

Verður óbreytt ástand?

Það er jákvætt að innanríkisráðherra vilji selja Íslandspóst og afnema einkarétt fyrirtækisins á bréfasendingum. Undirbúningur þess mun hins vegar taka tíma og því vaknar sú spurning hvort óbreytt ástand fái að standa enn um sinn.

Eðlilegast væri, til að undirbúa sölu fyrirtækisins og hindra að ríkið sé að vasast í samkeppnisrekstri, að allur samkeppnisrekstur Íslandspósts utan alþjónustu væri settur í sérstakt félag og þannig tryggt að keppinautarnir gætu treyst því að raunverulegur fjárhagslegur aðskilnaður væri í heiðri hafður. Það væri vafasamt að einkavæða Íslandspóst í óbreyttri mynd. Samkeppnisreksturinn væri þá hugsanlega með hundraða milljóna eða milljarða króna forgjöf, sem kæmi úr einkaleyfisrekstri fyrirtækisins.

Verðlagning Íslandspósts hefur af mörgum verið talin skaðleg fyrir samkeppni þar sem viðskiptavinir félagsins í þeim hluta rekstursins sem heyrir undir einkaleyfi þess eru látnir niðurgreiða þann hluta rekstursins sem er í almennri samkeppni. Frá því í ársbyrjun 2012 hefur Íslandspóstur t.d. krafizt tuga prósenta hækkana á gjaldskránni fyrir bréfasendingar, þar sem fyrirtækið er í einokunarstöðu. Á sama tíma hefur hins vegar dótturfyrirtæki Íslandspósts státað af því í tölvupósti til væntanlegra viðskiptavina að hafa ekki hækkað gjaldskrá sína fyrir gagnavörzlu frá því í ársbyrjun 2012.

Fjöldi mála á hendur Íslandspósti er í rannsókn hjá samkeppnisyfirvöldum. Innanríkisráðherra nefndi í umræðunni að mikilvægt væri að fá úr þeim málum leyst; hún gæti ekki lagt mat á það hvort fyrirtækið hefði í raun niðurgreitt samkeppnisrekstur með tekjum af einkaleyfinu, enda hafnaði fyrirtækið því sjálft að það væri tilfellið.

Eitt er að samkeppnisbrot séu sönnuð á ríkisfyrirtæki. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á meintum brotum Íslandspósts hefur staðið árum saman og enn ekki skilað niðurstöðu. Annað er að samkeppni ríkisins við einkaaðila er alltaf ójafn leikur. Það er væntanlega þess vegna sem Ólöf Nordal er þeirrar skoðunar að ríkið eigi „ekki að vasast í samkeppnisrekstri“.

Röng stefna leiðrétt?

Það felst í orðum ráðherra að Íslandspóstur hefur undanfarin ár tekið ranga stefnu og farið að vasast í alls konar samkeppni við einkaaðila þar sem félagið á ekkert erindi og stundað uppkaup á einkafyrirtækjum. Fjármálaráðherrann, sem fer með hlutabréf skattgreiðenda í Íslandspósti, og fulltrúar hans í stjórn fyrirtækisins bera í raun ábyrgð á þessari skógarferð. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að þeir vita nú villu síns vegar og þeim er líka í lófa lagið að leggja stjórnendum fyrirtækisins línurnar um að hætta þessum óæskilega erindrekstri. Þannig geta núverandi stjórnendur þegar í stað lagt félaginu til nýja og ábyrgari stefnu.




Skoðun

Sjá meira


×