
Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá UMÍS ehf. Environice, hefur vakið athygli á því að fyrst ekki hefur verið sýnt fram á að efnin finnist ekki í skaðlegu magni sé ástæða til að óttast að svo sé. Rannsókn Stefáns árið 2004 á PCB-mengun sýndi að tugi tonna af eiturefnunum er að öllum líkindum að finna í byggingum sem reistar voru hér á árabilinu 1956 til 1980.
Það hafa sérfræðingar Umhverfisráðuneytisins staðfest, og telja enga ástæðu til að halda að minna sé af efnunum en í nágrannalöndunum.
Kristín Ólafsdóttir, deildarstjóri eiturefnadeildar hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði Háskóla Íslands, segir að stofan gæti annast rannsókn á PCB-efnum í byggingum og úrgangi vegna niðurrifs eða viðhalds. Hins vegar hafi aldrei verið farið fram á slíkt.
„Það værum við sem myndum gera slík próf ef það væri einhver eftirspurn eftir því.“ Kristín segir að klárlega sé PCB að finna í gömlum byggingum hér á landi en ekki liggi fyrir rannsóknir á því í hversu miklu magni.
Stefán Gíslason telur hins vegar að návist við efnin hafi mikla heilsufarsáhættu í för með sér og það sé ástæðan fyrir því byggingaverkamenn sem vinna við viðhald og niðurrif séu taldir í sérstakri hættu.
Félagsbústaðir, hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar sem á og rekur félagslegar leiguíbúðir, hafa um árabil haft þá vinnureglu að umgangast gamlar byggingar í þeirra eigu með það í huga að af þeim stafi mengunarhætta, þar á meðal vegna PCB. Þórarinn Magnússon, forstöðumaður framkvæmdadeildar Félagsbústaða, segir að prufur hafi verið teknar til að kanna efnainnihald við viðhald bygginga Félagsbústaða. Þær séu hins vegar enn í geymslu.
„Við gáfumst upp á að láta rannsaka þetta hérna heima og gefum okkur það að þetta sé mengað.“
svavar@frettabladid.is