Lífið

Götu­lista­maðurinn Jójó látinn

Lovísa Arnardóttir skrifar
Jón skemmti gangandi vegfarendum í miðborg Reykjavíkur í áratugi.
Jón skemmti gangandi vegfarendum í miðborg Reykjavíkur í áratugi. Vísir

Jón Magnússon, götulistamaður, lést á hjartadeild Landspítalans þann 19. september síðastliðinn. Hann var þekktur undir listamannsnafninu Jójó. Hann var 65 ára að aldri þegar hann lést en hann fæddist í Reykjavík 2. nóvember 1960. Foreldrar hans eru Nanna Jónsdóttir og James Andrew Shipp, sem er látinn.

Greint er frá andláti hans á vef mbl.is. Jón var þekktur fyrir að spila á gítar og syngja fyrir gesti og gangandi í Austurstræti á kvöldin og um helgar og var oft nefndur trúbador götunnar. Í frétt mbl.is segir að hann hafi hafið feril sinn við Pylsuvagninn í Austurstræti fyrir 40 árum, árið 1985, og síðar spilað á sama stað á bæði gítar og munnhörpu. 

Þá hafi hann oft lagt leið sína á Eiðistorg og Kolaportið til að spila. Í frétt mbl.is er það einnig rifjað upp að hann hafi spilað með Bruce Springsteen á Strikinu árið 1988.

Í viðtali við Vísi árið 2009 sagði Jójó frá því að hann væri að gefa súpueldhúsum í New York upplag af plötu sinni sem hann hafði þá nýlega gefið út til styrktar Hjartavernd. Heimilislausir sem leituðu í eldhúsin áttu svo að fá diskinn til að selja. Jójó sagði þetta hugmynd sem hann fékk frá Danmörku þar sem heimilislausir seldu dagblöð.

„Ég fer þetta eins og skjaldbakan. Sem vann hérann. Verkefnið heitir ‚Greetings from Street JoJo in Iceland‘. Götugæi að bjarga heiminum,“ sagði Jójó í viðtalinu og að hann ætlaði með þetta verkefni til Kanada og víðar.

Útför Jóns fer fram frá Langholtskirkju fimmtudaginn 23. október klukkan 15.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.