Innlent

Al­var­legt slys á starfs­mönnum á Íslandsmeistarmóti í rallycross

Lovísa Arnardóttir skrifar
Keppnin var sýnd í beinni útsendingu G7 media en útsending rofin þegar slysið átti sér stað. Bílinn lenti ofan á starfsmönnunum. Þeir eru ekki í lífshættu en voru fluttir á bráðamóttöku Landspítalans. Áfallateymi Rauða krossins er á leið á vettvang.
Keppnin var sýnd í beinni útsendingu G7 media en útsending rofin þegar slysið átti sér stað. Bílinn lenti ofan á starfsmönnunum. Þeir eru ekki í lífshættu en voru fluttir á bráðamóttöku Landspítalans. Áfallateymi Rauða krossins er á leið á vettvang. Skjáskot

Síðdegis í dag slösuðust tveir starfsmann á Íslandsmóti í Rallycrossi á rallycrossbraut Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar, AÍH. Í myndbandi af atvikinu má sjá að einn ökumaður missir stjórn á bílnum og veltir honum upp brekku og beint á tvo starfsmenn. Slysið er til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt upplýsingum frá sjúkrafulltrúa. 

Guðni Sigurðsson, sjúkrafulltrúi á staðnum og sjálfsboðaliði á braut fyrir Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar, segir líðan starfsmannanna eftir atvikum og þá ekki í lífshættu.

„Við hlúðum að starfsmönnunum eins og hægt var á vettvangi en þeir voru svo fluttir með sjúkrabíl á bráðamóttöku spítalans. Líðan starfsmanna er eftir atvikum og þeir ekki í lífshættu,“ segir Guðni í samtali við fréttastofu.

Bíllinn fór lengra

Hann segir að um hörmulegt slys sé að ræða.

„Starfsmannapósturinn er hannaður til að vera ákveðið langt frá keppnisbraut eftir reglum en svo gerist slys sem er ófyrirsjáanlegt sem veldur því að bíllinn fer lengra upp í hólinn en gert var ráð fyrir að gæti.“

Hann segir líðan ökumanns bílsins einnig eftir atvikum en ekki þurfti að flytja hann á spítala. Keppnisstjóri hafði samband við Rauða krossinn í kjölfar atviksins og þau eru að vinna í því að fá starfsfólk á staðinn til að tala við fólk sem varð vitni að atburðinum.

Keppnin var sú fjórða af fimm í Íslandsmeistaramóti í rallycross. Keppni var frestað og útsending rofin þegar atvikið átti sér stað.

Fréttin hefur verið leiðrétt, fyrst stóð að slysið hefði átt sér stað á kvartmílubraut í Hafnarfirði en hið rétta er að það átti sér stað á rallycrossbraut AÍH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×