Innlent

Nýi brennslu­ofn göngugarpsins mættur á Sól­heima

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Kristján Atli Sævarsson göngugarpur og íbúi á Sólheimum við nýja brennsluofninn, sem hann safnaði fyrir.
Kristján Atli Sævarsson göngugarpur og íbúi á Sólheimum við nýja brennsluofninn, sem hann safnaði fyrir. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Kristján Atli Sævarsson, sem er íbúi á Sólheimum í Grímsnesi ræður sér vart yfir kæti þessa dagana því nýi leirbrennsluofninn, sem hann safnaði fyrir í Vestfjarðagöngu sinni i sumar er komin á Sólheima. Kristján sérhæfir sig að útbúa rjúpur og uglur þar sem doppurnar hans eru aðalskrautið á fuglunum.

Kristján Atli gekk fyrr í sumar í kringum Vestfirði í þeim tilgangi að safna fyrir nýjum og stærri leirbrennsluofni á Sólheimum. Kristján Atli er oft kallaður doppu meistari Íslands en hann skreytir rjúpurnar og uglurnar, sem fara inn í brennsluofninn með doppum. En nú er það nýji ofninn, sem allt snýst hjá þessum 31 árs meistara á Sólheimum. En hvað kostaði ofninn?

„Hann kostaði rúmar 3,6 milljónir en ég náði að safna rúmlega fimm og hálfri milljón,“ segir Kristján.

En hvað á að gera við peninginn, sem varð eftir?

„Kaupa svona tæki og tól fyrir leirgerðina og meiri málningu og meiri leir og bara allt, sem þarf fyrir leirgerðina,“ segir Kristján stoltur.

Kílómetrarnir, sem Kristján Atli gekk um Vestfirðina voru um 570 en hann tók tvær vikur í gönguna.

Nú eru uglurnar númer eitt, tvö og þrjú hjá Kristjáni.

„Þetta eiga að vera 570 uglur, eina fyrir hvern kílómetra, sem ég labbaði til að safna fyrir ofninum. Ég ætla rétt að vona að ég verði búin með verkefnið fyrir jólin,” segir Kristján.

Uglurnar, sem Kristján er að vinna þessa dagana og verða vonandi allar klárar fyrir jól.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hvað eru margar doppur í rjúpunum?

„Ég veit það ekki, þær eru óteljandi en ég er svona klukkutíma með hverja uglu að setja doppurnar á þær”, segir Kristján Atli, göngugarpur á Sólheimum.

Kristján með eina rjúpu en þær eru mjög vinsælar hjá honum og seljast eins og heitar lummur.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×