Erlent

Lést við tökur á Emily in Paris

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Diego Borella var úrskurðaður látinn á vettvangi eftir að hafa hnigið niður við tökur í Hotel Danieli.
Diego Borella var úrskurðaður látinn á vettvangi eftir að hafa hnigið niður við tökur í Hotel Danieli.

Ítalski aðstoðarleikstjórinn Diego Borella hneig niður við tökur á Netflix-þáttunum Emily in Paris í Feneyjum á fimmtudag og var úrskurðaður látinn á vettvangi af viðbragðsaðilum.

Staðarmiðillinn La Repubblica greinir frá andláti hins 47 ára Diego Borella. Tökur á fimmtu seríu þáttanna hafa staðið yfir frá 15. ágúst og á þeim að ljúka á mánudag. 

Þegar tökuliðið var að undirbúa sig fyrir töku á síðustu senu seríunnar í gærkvöldi í hinu sögurfræga Hotel Danieli hneig Borella niður. Talið er að hann hafi hlotið hjartaáfall en endurlífgunartilraunir báru ekki árangur.

Borella var vel liðinn í bransanum í Feneyjum, menntaður í Róm, Lundúnum og New York og hafði auk þess að vinna við kvikmyndagerð einnig við myndlist og skrif. Hann hafði áður unnið við ítölsku þættina DOC - Nelle tue mani (2022) en hafði nýverið tileinkað sér ljóða-, ævintýra- og barnabókaskrif.

Tökum á þáttunum hefur verið frestað tímabundið en fimmta serían gerist á Ítalíu þar sem Emily Cooper, leikin af Lily Collins, hefur störf fyrir Agence Grateau í Rome eftir að hafa flutt til og búið í París í fyrri seríum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×