Innlent

Grunaður á­rásar­maður í Úlfarsárdal hand­tekinn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Skjáskot úr myndbandi frá vettvangi.
Skjáskot úr myndbandi frá vettvangi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karlmann sem er gunaður um stunguárás í Úlfarsársdal í Reykjavík í dag. Einn var fluttur á sjúkrahús vegna málsins. Í tilkynningu frá lögreglu segir að atvik málsins séu óljós.

Þetta staðfestir Hjördís Sigurbjartsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu. Hún segir að lögreglu hafi borist tilkynning um málið upp úr klukkan þrjú í dag.

Sérsveit ríkislögreglustjóra aðstoðaði við handtökuna en mikill viðbúnaður var á vettvangi, samkvæmt tilkynningu lögreglu.

Hjördís segir að ekki sé vitað hvert ástand þess sem var fluttur á sjúkrahús sé að svo stöddu.

„Við erum á fullu að ná um verkefnið og leita að viðkomandi,“ segir Hjördís.

Fréttastofa hefur undir höndum myndband frá vettvangi, sem má sjá hér fyrir neðan, þar virðist sjálf árásin hafa verið tekin upp í fjarlægð.

 Atvikin sem sjást eiga sér stað utandyra í Úlfarsárdal. Þar má sjá einn mann, sem virðist halda á einhverju sem gæti verið hnífur eða annars konar stunguvopn, hlaupa að tveimur mönnum og veitast að þeim.

Jafnframt sést hann reyna að koma sér undan, en svo virðist sem bílstjóri jepplings hafi reynt að stöðva hann með akstri sínum.

Hér má sjá myndband frá vettvangi. Myndefnið er ofbeldisfullt og er því ekki fyrir viðkvæma.

Fréttin var uppfærð klukkan 16:40. Áður hafði grunaðs árásarmanns verið leitað, en fréttin var uppfærð eftir að upplýsingar fengust um að hann hefði verið handtekinn.

Fréttin var uppfærð á ný klukkan 17:30 eftir að tilkynning barst frá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×