Upp­gjörið: Valur - Þór Ak. 75-70 | Valur sendi Þórsara í sumar­frí

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Valur sendi Þór Akureyri í sumarfrí í Bónus deild kvenna.
Valur sendi Þór Akureyri í sumarfrí í Bónus deild kvenna. vísir/Anton

Valur sendi Þór Akureyri í sumarfrí úr Bónus-deild kvenna í körfubolta í kvöld með fimm stiga sigri í baráttuleik 75-70. 

Leikurinn byrjaði vel fyrir Val sem náði snemma forystu og voru mun beittari og orkumeiri í upphafi leiks. Gestirnir í Þór Akureyri áttu erfiða byrjun og voru lengi í gang.

Það var ekki fyrr en undir lok fyrsta leikhluta sem að gestirnir virtust vera að komast í takt við leikinn og það var Valur sem leiddi nokkuð sannfærandi 22-16 eftir fyrsta leikhluta.

Gestirnir í Þór Akureyri byrjuðu annan leikhluta af miklum krafti og byrjaði snemma að saxa vel á forskot Vals. Það var svo um miðjan leikhluta þar sem Maddison Anne Sutton setti þrist sem jafnaði leikinn og náði Þór Akureyri að stíga skrefið fram úr Val. Þegar gengið var til búningsklefa var staðan 34-38.

Þriðji leikhluti var ekkert svo ósvipaður öðrum leikhluta þar sem gestirnir frá Akureyri náðu að halda í skrefið á undan sem þær sóttu sér. Flottur endasprettur hjá Val skilaði þeim fimm stigum á eftir gestunum 56-61.

Taugarnar létu aðeins sjá sig í fjórða leikhluta þar sem þó nokkrar sóknir fóru forgörðum. Það var þá sem Dagbjört Dögg Karlsdóttir steig heldur betur upp. Hún setti niður tvo þrista með stuttu millibili sem jafnaði leikinn fyrir Val og kom þeim í smá andrými þegar stutt var eftir.

Það fór svo að Valsliðið var sterkara á lokakaflanum og fóru með fimm stiga sigur af hólmi 75-70 og sendu lið Þórs norður í sumarfrí.

Atvik leiksins

Í nokkuð jöfnum leik á Dagbjört Dögg þrist sem jafnar leikinn fyrir Val og maður fann það snemma hversu mikilvægur hann var fyrir Val. Þetta snéri mómentuminu yfir og Valsliðið kláraði leikinn.

Stjörnur og skúrkar

Jiselle Thomas var frábær í liði Vals í kvöld og skoraði 25 stig. Alyssa Marie Cerino var með tvöfalda tvennu en hún setti 18 stig og reif niður 12 fráköst. Dagbjört Dögg Karlsdóttir var svo með kannski mikilvægustu stigin í kvöld en hún endaði með 18 stig.

Hjá Þór var Maddison Anne Sutton allt í öllu. Skoraði 26 stig og var með 14 fráköst.

Dómararnir



Sigmundur Már Herbertsson, Jakob Árni Ísleifsson og Sigurbaldur Frímannsson sáu um flautuna í kvöld. Einhverjir kvörtuðu undir hörkunni sem þeir leyfðu og sú kvörtun á mögulega rétt á sér. Mér fannst þeir heilt yfir bara fínir í kvöld. 

Stemingin og umgjörð

Hefði viljað sjá fleiri í stúkunni í kvöld en fullt hrós á þau sem mættu hér í kvöld. Frank Aron Booker var líflegur í stúkunni hjá Val með Valsfánann og studdi sitt lið áfram ásamt öðrum leikmönnum úr karlaliði Vals. Umgjörðin var frábær eins og alltaf hjá Val.

Viðtöl 

Jamil Abiad, þjálfari Valsvísir / pawel

„Stelpurnar svöruðu kallinu og útkomman varð þessi“

„Þetta var eins og ég bjóst við. Þetta var brjálað og þær voru ekki að fara gefa neitt eftir og börðust alveg til enda. Þær eru með gott lið og hrós á þær og þjálfarateymið fyrir tímabilið sem þær hafa átt. Ég er mjög ánægður með mitt lið og sérstaklega að berjast í gegnum mótlætið. Við áttum ekki góðan fyrri hálfleik en við komum út með meiri orku í seinni hálfleik og náðum góðum stoppum“ sagði Jamil Abiad þjálfari Vals eftir sigurinn í kvöld.

Valur byrjaði leikinn sterkt en fóru undir inn í hálfleik en náðu að snúa leiknum sér í hag undir lok leiks aftur og kreista fram sigur.

„Varnarlega þá leyfðum við hluti sem við höfðum talað um að ekki leyfa. Þeirra orkustig fór upp á meðan okkar stóð í stað. Sóknarkega þá varð þetta líka erfiðara og fórum að reyna erfið skot. Við ræddum það í hálfleik og ætluðum að reyna laga þessa hluti og stelpurnar svöruðu kallinu og útkoman varð þessi“

Valur sigraði seríuna 3-1 en hversu langt getur þetta Valslið farið?

„Eins lagt og stelpurnar vilja fara. Okkar markmið er auðvitað Íslandsmeistaratitillinn en það verður ekki auðvelt. Það verður erfið sería næst og við erum bara að bíða eftir að sjá hverjum við mætum“ sagði Jamil Abiad að lokum.

Daníel Andri Halldórsson, þjálfari ÞórsVísir/Hulda Margrét

„Fengum áhættuna sem við tókum allt tímabilið í bakið“

„Við fengum bara áhættuna sem að við tókum allt tímabilið í bakið á kolvitlausum tíma. Við erum að æfa þrár á þjár, fjórar á þrjá og stundum bara fimm, sex eða sjö á æfingu. Mikið álag á stutta róteringu og fengum bara eymsli og meiðsli sem fóru að hrannast upp þegar það fór að skipta máli og við tökum ekki þessa áhættu aftur allavega“ sagði Daníel Andri Halldórsson svekktur eftir tapið í kvöld.

„Mér fannst við fara vera hikandi en um leið og það kom smá eldmóður hjá okkur aftur þá voru dómararnir svolítið komnir heim. Alveg fráleitt í restina. Það mátti ýta í bak alveg endalaust, bæði lið. Þetta var orðið hættulegt hérna á vellinum og bara til skammar þegar mestu máli skipti.“

„Við vorum hikandi. Þær fara í svæði og við erum ekki að brjóta það upp nógu mikið. Síðan alveg í blálokin þá erum við bara að fá galopin skot sem við höfum verið að setja allt tímabilið og þau voru bara ekki að detta. Heilt yfir þá bara fannst mér við gera næstum allt sem við gátum þarna í restina“ sagði Daníel Andri að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira