Körfubolti

Spilaði í sex sekúndur til að missa ekki úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikal Bridges í leik með liði New York Knicks.
Mikal Bridges í leik með liði New York Knicks. Getty/Dustin Satloff

Mikal Bridges spilaði alla 82 leiki í boði í NBA deildinni í körfubolta á þessu tímabili og þessi járnmaður deildarinnar heldur því áfram að missa ekki úr leik.

Bridges kom inn í deildina árið 2018 og hefur ekki misst úr leik síðan. Lokaleikur þessa tímabils var 556. leikur hans í röð.

Hann hóf feril sinn með Phoenix Suns, fór í Brooklyn Nets en spilar nú með New York Knicks.

Eins og gefur að skilja þá hefur Bridges mikinn metnað fyrir því að missa ekki úr leik.

Í lokaleik Knicks í gær þá spilaði hann í aðeins sex sekúndur. Hann byrjaði inn á vellinum en yfirgaf völlinn eftir að hafa brotið af sér eftir þessar fyrrnefndar sex sekúndur. Allt til að hald því gangandi að missa ekki úr leik.

Metið yfir flesta leiki í röð án þess að missa úr leik á A.C. Green sem spilaði 1192 leiki í röð á árunum 1986 til 2001. Green spilaði alla leikina á sextán tímabilum í röð með fjórum mismunandi liðum.

Eftir þessa 82 leiki í vetur þá er Bridges kominn upp í tíunda sætið á listanum yfir flesta leiki í röð án þessa að missa úr leik en næstur á undan honum er John Stokcton með 609 leiki í röð frá 1990 til 1997.

Spili Bridges alla 82 leikina á næsta tímabili þá kemst hann upp í áttunda sæti listans. Hann þarf að spila 636 leiki í viðbóta án þess að missa úr leik til að ná ótrúlegu meti Green.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×