Körfubolti

Jokic sá þriðji með þre­falda tvennu að meðal­tali í leik á tíma­bili

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Jokic átti stórleik gegn Memphis Grizzlies í nótt.
Nikola Jokic átti stórleik gegn Memphis Grizzlies í nótt. getty/AAron Ontiveroz

Nikola Jokic, leikmaður Denver Nuggets, heldur áfram að skrifa nafn sitt í sögubækur NBA-deildarinnar í körfubolta.

Jokic var með þrefalda tvennu þegar Denver sigraði Memphis Grizzlies, 117-109, í nótt. Serbinn skoraði 26 stig, tók 26 fráköst og gaf tólf stoðsendingar.

Denver á aðeins einn leik eftir á tímabilinu en ljóst er að Jokic lýkur deildarkeppninni með þrefalda tvennu að meðaltali í leik.

Hann er aðeins þriðji leikmaðurinn í sögu NBA sem afrekar það. Oscar Robertson gerði það með Cincinnati Royals tímabilið 1961-62 og Russell Westbrook, samherji Jokic hjá Denver, náði því þrisvar sinnum með Oklahoma City Thunder og einu sinni með Washington Wizards.

Jokic hefur náð 34 þrennum á tímabilinu. Hann er með 29,8 stig, 12,8 fráköst og 10,2 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur.

Jokic er þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar, annar frákastahæsti og annar stoðsendingahæsti.

Denver er í 4. sæti Vesturdeildarinnar og tryggir sér heimavallarrétt í 1. umferð úrslitakeppninnar með því að vinna Houston Rockets í lokaleik sínum í deildarkeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×