Guðjón Valdimarsson, faðir Sigríðar Bjarkar ríkislögreglustjóra, hefur verið til umfjöllunar fjölmiðla undanfarna daga vegna meintrar sölu hans á ólöglegum og hálfsjálfvirkum vopnum.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í samtali við fréttastofu í gær að Sigríður Björk, sem þá var lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hafi fylgt öllum reglum og tilkynnt um tengsl sín og málið verið flutt til annars embættis. Ekkert benti til að lögreglan hafi hlíft Guðjóni vegna tengsla hans inn í lögregluna.
Þá hefur komið fram að á fjórða tug óskráðra vopna hafi fundist á heimili hans þegar húsleit var gerð þar í tengslum við rannsókn á hryðjuverkamálinu svokallaða.
Maður var í ársbyrjun 2021 dæmdur í Landsrétti fyrir að eiga breyttan hálfsjálfvirkan riffil, sem hann keypti af Guðjóni.
Maðurinn hefur haldið því fram frá því að lögregla gerði húsleit heima hjá honum við upphaf rannsóknarinnar að riffillinn hafi verið í ólöglegri mynd þegar Guðjón seldi honum hann. Þá hafi Guðjón sannfært hann um að riffillinn væri löglegur, þar sem hann hafi verið skráður áður en vopnalögum var breytt.
Fram kemur í lögregluskýrslu að maðurinn hafi strax við húsleit, 26. júní 2018, nefnt Guðjón og sakað hann um að hafa breytt vopninu. Það var þó ekki fyrr en nærri þremur vikum síðar, 16. júlí 2018, sem ríkissaksóknari fól lögreglustjóranum á Vesturlandi meðferð málsins vegna tengsla Sigríðar Bjarkar, sem þá var lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglumaðurinn sem rannsakaði málið þessar þrjár vikur sagðist ekki hafa vitað tengsl byssusmiðsins, Guðjóns, við lögreglustjórann. Hann hafi ekki lesið frumskýrsluna, þar sem tengsl Guðjóns við málið komu fram, og sagt sig frá málinu um leið og tengslin voru ljós.
Þá kemur fram að lögreglumaðurinn sem skráði vopnið hafi ekki skoðað það við skráningu heldur farið eftir upplýsingum frá Guðjóni.
Fyrirsögn fréttarinnar var uppfærð klukkan 17:30. Hún var áður „Sagði sig frá rannsókn tuttugu dögum eftir að nafn Guðjóns kom upp“. Bréf lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til ríkissaksóknara um tengsl Sigríðar Bjarkar við málið var hins vegar sent fjórum dögum áður en málið var sent til lögreglunnar á Vesturlandi og fyrirsögnin því röng. Hún hefur verið uppfærð.