Innlent

Heldur fullum launum

Árni Sæberg og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Þorbjörg Sigríður og Sigríður Björk funduðu í gær og niðurstaðan var sú að Sigríður Björk segir af sér embætti.
Þorbjörg Sigríður og Sigríður Björk funduðu í gær og niðurstaðan var sú að Sigríður Björk segir af sér embætti. Vísir

Sigríður Björk Guðjónsdóttir verður á fullum launum ríkislögreglustjóra í nýju starfi sem sérfræðingur hjá dómsmálaráðuneytinu. Dómsmálaráðherra segir það betri nýtingu á opinberum fjármunum en ef Sigríður Björk sæti heima á launum.

Sigríður Björk óskaði eftir því í gær að láta af embætti ríkislögreglustjóra. Það gerði hún í kjölfar mikillar fjölmiðlaumræðu um fjármál embættis hennar og sér í lagi 160 milljóna króna greiðslur til Intra ráðgjafar.

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu segir að Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hafi orðið við beiðni Sigríðar Bjarkar um að láta af embætti. Þetta hafi verið niðurstaða fundar þeirra beggja í gær.

Í samtali við fréttastofu segir Þorbjörg Sigríður að Sigríður Björk eigi fjögur ár eftir af fimm ára skipunartíma sínum.

„Sem ráðherra sem vill fara vel með fjármuni almennings þá finnst mér það auðvitað jákvæð niðurstaða að hér er ekki verið að gera starfslokasamning. Hér verður niðurstaðan sú að á þessu tímabili sem eftir er af samningnum þá verður hún að störfum og vinnur fyrir sínum launum. Mér finnst það sjálfstætt fagnaðarefni.“

Lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna séu algjörlega skýr um það að Sigríður Björk haldi fullum launum út skipunartíma sinn. Það sé ekki atriði sem hægt sé að semja um.

„Í því samhengi finnst mér jákvætt að niðurstaðan sé ekki sú að hún segi af sér embætti, sitji heima á launum að gera ekki neitt, heldur verði hún að vinna fyrir þeim í þágu mjög mikilvægra verkefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×