Þetta kom fram í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 úr hvalstöðinni en Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., staðfesti við fréttastofu síðdegis að fyrsti hvalurinn hefði veiðst fyrr í dag djúpt út af Faxaflóa.
Það voru reyndar margir farnir að halda, eftir hléið sem staðið hefur yfir frá haustinu 2018, að hvalveiðar Íslendinga heyrðu sögunni til. Þegar rætt var við forstjóra Hvals á bryggjunni í Reykjavíkurhöfn í gær, við brottför hvalbátanna, var enginn bilbugur á honum varðandi framtíð hvalveiða.
-Heldurðu að þú sért kominn til með að veiða hvali í mörg ár?
„Það held ég að hljóti að vera,“ svaraði Kristján.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra er núna ráðherra málaflokksins. Í grein í Morgunblaðinu í febrúar benti hún á að núverandi veiðiheimildir giltu út árið 2023. Að óbreyttu yrði því engin veiði heimil á hvölum frá árinu 2024.
Sýna þyrfti fram á að það væri efnahagslega réttlætanlegt að endurnýja veiðiheimildir. Að óbreyttu væri fátt sem rökstyddi það að heimila hvalveiðar eftir árið 2024.
„Mér sýnist að þetta sé hennar prívatskoðun og hún má hafa hana ef hún vill,“ segir Kristján Loftsson.
-Þú hefur ekki áhyggjur af því?
„Engar áhyggjur af því,“ svarar hann.

Í könnun sem Náttúruverndarsamtök Íslands birtu í síðustu viku kom fram að meirihluti landsmanna teldi hvalveiðar hafa neikvæð áhrif á orðspor Íslands. Í frétt á Vísi var haft eftir Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, að hvalveiðar hefðu jafnvel svo neikvæð áhrif að fólk sniðgengi ferðalög til Íslands.
-Ferðaþjónustan segir að þetta skaði ímynd Íslands og orðspor. Hefur þú áhyggjur af því?
„Nei, ég held þeir skaði sjálfa sig mest með þessu kjaftæði. Ef þú skoðar tölurnar þá heldur þetta ekki vatni hjá þeim, ekki neitt.“
-Og ekki fækkar ferðamönnum?
„Nei, ekki neitt. Ef þú skoðar statistíkina þá hefur þeim fjölgað ár eftir ár eftir að við byrjuðum aftur,“ segir forstjóri Hvals.

Hvalbáturinn lagði um miðjan dag af stað áleiðis til lands með fyrsta hvalinn en búist var við að áhöfnin myndi reyna að veiða annan hval á leiðinni. Því var óvíst undir kvöld hvenær hann kæmi í Hvalfjörð.
Áætla má að siglingin af miðunum geti tekið tólf til fimmtán klukkustundir en einnig gæti kalsaveður hægt á siglingunni. Það þykir þó nokkuð víst að hvalur verði dreginn á land í hvalstöðinni á morgun og menn muni þar sjá hvalskurð á ný á vinnsluplaninu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: