Innlent

Svona fer peninga­þvætti fram

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Áætlað er að heildarumfang peningaþvættis nemi 2–5 prósentum af vergri landsframleiðslu á heimsvísu, sem jafngildir um 90–230 milljörðum króna á Íslandi árið 2024.
Áætlað er að heildarumfang peningaþvættis nemi 2–5 prósentum af vergri landsframleiðslu á heimsvísu, sem jafngildir um 90–230 milljörðum króna á Íslandi árið 2024. Vísir/Heiðar

Fjármögnun á lúxuslífstíl, kaup á gjaldeyri og fasteignum, lánagerningar og svokallaðar sýndareignir eru meðal algengustu leiða skipulagðra brotahópa til peningaþvættis. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi á Íslandi.

Peningaþvætti felur í sér að dylja uppruna fjárhagslegs ávinnings af ólöglegri starfsemi. Í skýrslunni er peningaþvætti skipt í þrjú stig. Á því fyrsta er ólöglegum ávinningi komið fyrir í fjármálakerfinu. Á því næsta er ávinningurinn fluttur um fjármálakerfið til að leyna uppruna hans. Loks er hann hagnýttur eins og hann hafi verið fenginn löglega.

Aðferðirnar sífellt flóknari

Fram kemur að peningaþvætti sé stundað af ólíkum aðilum í samfélaginu en sé í raun grundvallarþáttur í starfsemi brotahópa og meginforsenda þess að skipulögð brotastarfsemi þrífist.

Eftir því sem brotahópar verða umfangsmeiri og skipulagðari nýti þeir flóknari aðferðafræði við peningaþvætti. Vísað er í nýlega skýrslu Europol því til stuðnings, en í skýrslunni kemur fram að 86 prósent af hættulegustu skipulögðu brotasamtökunum í Evrópu nýti sér lögleg fyrirtæki við brotastarfsemi sína og peningaþvætti.

Sérfræðingar aðstoði við peningaþvætti

Hérlendis endurspeglist þróunin meðal annars í notkun svokallaðra leppa. Það séu oft einstaklingar í viðkvæmri stöðu, sem fengnir eru til að vera skráðir eigendur fyrirtækja, notaðir sem milliliðir í millifærslum, gjaldeyrisviðskiptum eða í tengslum við tilhæfulausa reikninga.

Þá geti þróunin hér á landi, líkt og á alþjóðavísu, verið sú að sérfræðingar á sviði fjármála og lögfræði aðstoði við peningaþvætti og dragi úr líkum á að brotin komist upp. Vísað er til nýlegs dóms Héraðsdóms Reykjaness þar sem lögmaður var dæmdur fyrir peningaþvætti þar sem hann hafði ráðstafað ólögmætum ávinningi. Þó að málið hafi ekki snúið að skipulagðri brotastarfsemi sé það til staðfestingar að slík þjónusta sé til staðar á Íslandi.

Í skýrslunni segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætli að heildarumfang peningaþvættis nemi 2–5 prósentum af vergri landsframleiðslu á heimsvísu, sem jafngildi um 90–230 milljörðum króna á Íslandi árið 2024. 

Loks er vikið að sex helstu aðferðum skipulagðra brotahópa til peningaþvættis. Þær eru samkvæmt skýrslu greiningardeildarinnar eftirfarandi.

1. Neysla og lífstíll 

Ein algengasta leiðin til að þvætta ólögmætan ávinning er að nýta hann til reglubundinnar neyslu, til dæmis matarkaup og almenna þjónustu. Þá er þekkt að hann sé einnig nýttur til að fjármagna dýrari lífstíl, sem sagt reglubundnar máltíðir á veitingastöðum og lúxusvörur. 

2. Kaup og smygl á gjaldeyri 

Ávinningi er breytt í gjaldeyri og smyglað úr landi til neyslu, fjárfestinga eða til að fjármagna áframhaldandi brotastarfsemi. Féð getur skipt um margar hendur á leiðinni til að draga úr rekjanleika. Eðli málsins samkvæmt er þessi aðferðafræði meira notuð af þeim sem hafa erlend tengsl. 

3. Fasteignaviðskipti- og framkvæmdir 

Brotahópar nýta ýmsar leiðir til að þvætta fé í gegnum fasteignir. Talið er að þetta sé ein áhættumesta tegund viðskipta hvað varðar peningaþvætti á Íslandi.

Í skýrslunni er sett fram dæmi um slíka peningaþvætti í gegnum fasteignaviðskipti, sem er eftirfarandi: 

Keypt er fasteign. Hluti útborgunar er greiddur svart með „óhreinu“ reiðufé (PÞ1), og er kaupverð því skráð lægra en ella í kaupsamning. Lán er tekið fyrir útistandandi kaupverði og fær þannig lántaki „hreint“ fjármagn í hendurnar. Greitt er af láninu mánaðarlega með „óhreinu“ reiðufé (PÞ2). Framkvæmdir við fasteignina eru greiddar svart með „óhreinu“ reiðufé (PÞ3). Að lokum má selja eignina og hægt er að gefa upp hærri söluhagnað en tilefni er til (PÞ4) og þannig útskýra auknar tekjur.

4. Fjárfesting í öðrum verðmætum

 Kaup á verðmætum á borð við listaverk, skartgripi og bíla, en með því má geyma eða flytja verðmæti utan hefðbundins fjármálakerfis. 

5. Lánagerningar 

Brotahópar nota ýmsar leiðir til að þvætta fé í gegnum lán, meðal annars í tengslum við fasteignaviðskipti. Þá eru til dæmi um að brotamenn kaupi svokölluð innheimtuskuldabréf frá innheimtufyrirtækjum. Þannig getur brotamaður sýnt fram á „hreint“ tekjustreymi þegar hann tekur við endurgreiðslu skuldabréfsins. Þá má nefna að upphafleg lánsfjárhæð getur verið töluvert lægri en heildarendurgreiðsla lántaka. Í mörgum tilfellum eru slík skuldabréf tilhæfulaus, það er einungis til að þvætta fé. Í sumum tilfellum hafa komið fram vísbendingar um fjárkúgun eða notkun áðurgreindra „leppa“. 

6. Sýndareignir

Vísbendingar eru um að brotamenn nýti í auknum mæli sýndareignir við peningaþvætti. Þvættið er þá fyrst og fremst falið í því að sýndareignir eru fluttar á milli einstaklinga. Slíkir flutningar, eða viðskipti, eru nafnlausir, hraðir og án landamæra, sem dregur úr rekjanleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×