Jan Jambon, innanríkisráðherra Belgíu, segir að yfirvöld hafi vitað að öfgamenn væru að leggja á ráðin um einhverjar aðgerðir í Evrópu en hann segir að alvarleiki og umfang hryðjuverkaárásanna í Brussel í morgun hafi komið á óvart.
„Það var alltaf möguleiki á fleiri árásum en við gátum ekki ímyndað okkar að þær yrðu af þessari stærðargráðu. [...] Við höfðum engar upplýsingar um þetta, en við vissum þó að það væri eitthvað í gangi í Evrópu, í mismunandi löndum, Frakklandi, Þýskalandi og hér,“ segir Jambon.
Að minnsta kosti 31 létust í árásunum og um 250 særðust, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðherra Belgíu, Maggie DeBlock. Ellefu manns létust í árás sem gerð var á alþjóðaflugvellinum í Brussel en þar sprungu tvær sprengjur.
Þá létust 20 manns í lest á Maelbeek-neðanjarðarlestarstöðinni þar sem sprengja sprakk inni í einum vagni lestarinnar.
Mínútu þögn verður í Belgíu á morgun klukkan 12 að staðartíma. Í kvöld hefur fólk safnast saman við Place de la Bourse í Brussel til að minnast þeirra sem létust. Forsætisráðherra landsins, Charles Michel, var á meðal þeirra sem komu og kveikti á kerti í minningu fórnarlambanna.
Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð árásunum og leitar lögreglan nú um alla Belgíu að manni sem grunaður er um að vera einn af árásarmönnunum.
„Gátum ekki ímyndað okkar að árásirnar yrðu af þessari stærðargráðu“

Tengdar fréttir

Sprengingar á flugvelli og lestarstöð í Brussel
Samgöngukerfi borgarinnar hefur verið lokað og viðbúnaður settur í hæsta stig.

Umfangsmikil leit um alla Belgíu að grunuðum hryðjuverkamanni
Belgíski ríkissaksóknarinn, Frederic Van Leeuw, greindi frá því hvernig rannsókn yfirvalda á hryðjuverkaárásunum í Brussel í morgun miðar á blaðamannafundi nú undir kvöld.

Íslamska ríkið lýsir yfir ábyrgð á hryðjuverkunum í Belgíu
34 eru látnir eftir sprengingarnar og á annað hundrað særðir.

Íslendingur í Brussel: „Maður er svo vanur því að vera öruggur“
Freyja Steingrímsdóttir segir skemmtilegt að sjá hvað borgarbúar hafa brugðist við árásunum með mikilli samheldni.