Bíó og sjónvarp

Barnastjarna bráðkvödd

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Floyd Roger Myers Jr. lést eftir að hafa fengið hjartaáfall.
Floyd Roger Myers Jr. lést eftir að hafa fengið hjartaáfall.

Fyrrverandi barnastjarnan Floyd Roger Myers Jr. er látinn, 42 ára að aldri. Myers er þekktastur fyrir að hafa leikið yngri útgáfuna af Will Smith í þáttunum um prinsinn ferska frá Bel-Air.

Dægurmálamiðillinn TMZ greindi frá andláti hans og hefur fregnirnar eftir móður hans, Renee Trice.

Myers lést á heimili sínu í Maryland að morgni miðvikudags í kjölfar hjartaáfalls. Að sögn móður hans hafði hann fengið þrjú hjartaáföll á síðustu þremur árum. Hún hefði síðast rætt við son sinn kvöldið áður en hann lést.

Floyd var fjögurra barna faðir.

Systir Myers, Tyree Trice, greindi einnig frá andlátinu á GoFundMe-síðu þar sem er verið að safna pening fyrir jarðarför hans. Hún sagði hjartaáfallið hafa verið „óvænt“ og „skyndilegt“.

„Hann var hugulsamur faðir, ástríkur bróðir og vinur sem bjó yfir gæsku, hlátri og hlýju sem snerti við öllum sem hún hitti,“ skrifaði Tyree um eldri bróður sinn.

Floyd hóf leiklistarferill sinn aðeins níu ára gamall þegar hann lék yngri útgáfuna af Will Smith í einum þætti af grínseríunni The Fresh Prince of Bel-Air. Sama ár lék hann ungan Marlon Jackson í framhaldsþáttaröðinni The Jacksons: An American Dream.

Floyd í hlutverki ungs Will Smith

Hann lék síðan smáhlutverk í einum þætti af dramaseríunni Young Americans sem voru sýndir um aldamótin. Eftir það sagði hann skilið við leiklistina og hafði síðustu 25 ár átt loftstokkahreinsunarfyrirtækið Dr. Duct og stofnað samtökin Fellaship sem áttu að hlúa að andlegri líðan karlmanna.

Floyd lætur eftir sig börnin Taelyn, Kinsley, Tyler og Knox.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.