Upp­gjörið: Víkingur - Valur 2-0 | Meistararnir klára tíma­bilið með stæl

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Víkingar kláruðu tímabilið með sigri.
Víkingar kláruðu tímabilið með sigri.

Nýkrýndir Íslandsmeistarar Víkings unnu öruggan 2-0 sigur er liðið tók á móti Val í lokaumferð tímabilsins í dag. Gylfi Þór Sigurðsson og Matthías Vilhjálmsson með mörkin, en Matthías spilaði sinn síðasta leik á ferlinum.

Leikurinn byrjaði af krafti og ljóst að hörkuleikur milli liðanna væri í vændum.

Gylfi Þór Sigurðsson braut ísinn og kom Víkingi yfir á 32. mínútu með laglegu skoti fyrir utan teig.

Matthías Vilhjálmsson sem var að spila sinn síðasta leik fyrir Víking, tvöfaldaði forystu Víkings á 45. mínútu leiksins. 2-0 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Víkingur voru töluvert betri aðilinn í leiknum og sigldu sigrinum heim í lokaleik liðanna á tímabilinu.

Atvik leiksins

Víking tókst að gera það sem Valur gerði ekki og það er að heiðra frábæra leikmenn sem voru að spila sinn síðasta leik fyrir félagið. Pablo Punyed og Matthías Vilhjálmsson voru að spila sinn síðasta leik fyrir félagið og fengu báðir heiðursskiptingu. Virkilega fallegt að sjá þá kveðja félagana og stuðningsmennina í stúkunni.

Stjörnur og skúrkar

Matthías Vilhjálmsson flottur í sínum lokaleik fyrir Víking og skoraði frábært skallamark.

Pablo Punyed fannst mér líka flottur á miðjunni í fyrri hálfleik, en hann spilaði einnig sinn síðasta leik fyrir Víking.

Gylfi Sigurðsson skoraði fyrsta mark Víkings í dag og átti frábæran leik á miðjunni. Besti leikmaður vallarins í dag.

Stemning og umgjörð

Stútfull stúka og vel það á Víkingsvellinum. Þvílík mæting á völlinn og umgjörðin hérna er alveg hreint til fyrirmyndar.

Dómarar

Helgi Mikael Jónasson var á flautunni í dag, honum til aðstoðar voru Egill Guðvarður Guðlaugsson og Eysteinn Hrafnkelsson. Vel dæmdur leikur að mínu mati og ekkert vesen.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira