Íslenski boltinn

Hemmi Hreiðars orðaður við Val

Sindri Sverrisson skrifar
Hermann Hreiðarsson er orðaður við þjálfarastarfið hjá Val eftir að hafa gert góða hluti með HK og ÍBV í Lengjudeildinni á síðustu árum.
Hermann Hreiðarsson er orðaður við þjálfarastarfið hjá Val eftir að hafa gert góða hluti með HK og ÍBV í Lengjudeildinni á síðustu árum. vísir/Viktor Freyr

Valsmenn eru sagðir hafa rætt við Hermann Hreiðarsson, þjálfara HK, um að verða næsti þjálfari karlaliðs Vals í fótbolta.

Þetta er fullyrt í grein Fótbolta.net í dag þar sem segir að Valsmenn hafi einnig heyrt í Ólafi Inga Skúlasyni áður en hann var í gær kynntur sem nýr þjálfari Breiðabliks.

Srdjan Tufegdzic er þjálfari Vals og hann skrifaði undir samning til þriggja ára í fyrra, þegar hann var ráðinn í stað Arnars Grétarssonar á miðju tímabili.

Á fyrsta heila tímabili Vals með Túfa, eins og hann er kallaður, sem aðalþjálfara komst liðið í bikarúrslitaleikinn í ár og mun enda í 2. sæti Bestu deildarinnar, nema eitthvað ótrúlegt gerist í lokaumferðinni um næstu helgi (Valur er þremur stigum fyrir ofan Stjörnuna en með 11 mörkum betri markatölu).

Engu að síður hefur verið þrálátur orðrómur um að stjórn Vals íhugi að skipta um þjálfara og hún virðist núna farinn að ræða við mögulega arftaka.

Hermann Hreiðarsson var nálægt því að koma liði upp úr Lengjudeildinni tvö ár í röð. Eftir að hafa unnið deildina með ÍBV í fyrra tók hann við HK sem tapaði úrslitaleik á nýafstaðinni leiktíð gegn Keflavík, um sæti í Bestu deildinni.

Hermann, sem er 51 árs og lék á sínum tíma 89 A-landsleiki og í 15 ár sem atvinnumaður, hefur auk þess að stýra HK og ÍBV einnig þjálfað Þrótt Vogum sem og kvenna- og karlalið Fylkis, auk þess að vera aðstoðarþjálfari hjá Kerala Blasters á Indlandi og Southend United á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×