Íslenski boltinn

Vestri og KR mætast á fyrsta degi vetrar: „Vona að það snjói ekki í nótt“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kerecis völlurinn verður skafaður og klár í slaginn á fyrsta degi vetrar.
Kerecis völlurinn verður skafaður og klár í slaginn á fyrsta degi vetrar. vestri

Vestri tekur á móti KR á morgun, á fyrsta degi vetrar, í úrslitaleik um sæti í Bestu deildinni á næsta ári. Vestramenn þurftu að draga fram snjósköfurnar í morgun og vona að það snjói ekki í nótt, en völlurinn verður klár í slaginn sama hvað.

„Staðan er bara fín, það snjóaði lítillega í nótt en það var búið að gera völlinn kláran áður en æfingar hófust í morgun. Það þurfti aðeins að skafa, en það var mjög lítið, svo skín sólin núna, þannig að það er bara allt upp á tíu hérna“ sagði Samúel Samúelsson, framkvæmdastjóri Vestra í samtali við Vísi.

„Ég ætla að vona að það snjói ekki aftur í nótt, ég vona ekki, en völlurinn verður fínn á morgun“ bætti hann svo við.

Kerecis-völlurinn er grænn og glæsilegur í sólinni, nýskafaður.

Lítilsháttar snjókomu er spáð í flestum landshlutum í nótt og samkvæmt veðurspá verður um fimm stiga frost á Ísafirði.

Kerecis-völlurinn á Ísafirði er ekki upphitaður og því þarf að skafa ef snjórinn fellur.

„Ef það myndi snjóa aftur, þá þyrftum við bara að gera það sama og í dag, skafa. Það er aðallega bara að tíminn hlaupi ekki frá manni, en þetta er allt gert með tækjum“ sagði Samúel áhyggjulaus fyrir morgundaginn.

Spáin fyrir leikinn sjálfan lítur líka betur út en hún gerði fyrir stuttu síðan og leikurinn ætti að fara fram við hita um frostmark, frekar en í -3 gráðum eins og fyrsta spár gerðu ráð fyrir.

Lokaleikur tímabilsins í fyrra fór fram við krefjandi aðstæður og mikinn snjóþunga. sýn skjáskot

Lokaleikur síðasta tímabils milli Vestra og Fylkis situr mörgum í minni, en sá leikur fór fram við mikinn snjóþunga.

Á Íslandi er auðvitað allra veðra von og spár geta snögglega breyst, en það lítur út fyrir að leikurinn á morgun muni fara fram við mun betri aðstæður og litla eða enga snjókomu.

Úrslitaleikur Vestra og KR verður í beinni útsendingu á Sýn Sport Ísland á morgun klukkan 14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×