Lífið

Adolescence, The Studio og Colbert komu, sáu og sigruðu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stephen Colbert hlaut Emmy-verðlaunin fyrir besta spjallþáttinn.
Stephen Colbert hlaut Emmy-verðlaunin fyrir besta spjallþáttinn. Getty/Kevin Winter

Dramaþáttaröðin Adolescence kom, sá og sigraði á Emmy-verðlaunahátíðinni í gærkvöldi, þar sem hún hlaut sex verðlaun. 

Stephen Graham hlaut tvenn verðlaun, fyrir handrit og leik í aðalhlutverki, og þá varð Owen Cooper yngsti einstaklingurinn til að hreppa verðlaunin fyrir besta leik í aukahlutverki í sjálfstæðri þáttaröð (e. limited series).

Erin Doherty hlaut verðlaunin fyrir besta leik í aukahlutverki.

Adolescence sópaði að sér verðlaunum.Getty/Amy Sussman

Gamanþáttaröðin The Studio sló met og hlaut alls þrettán Emmy-verðlaun, ef talin eru með þau verðlaun sem þátturinn hlaut á Creative Arts Emmy fyrir viku. Þátturinn var valinn besta gamanþáttaröðin og Seth Rogen hlaut þrenn verðlaun; fyrir besta leik, handrit og leikstjórn.

Seth Rogen játaði að vera „vandræðalega“ glaður með sigra sína.Getty/Kevin Mazur

Læknadramað The Pitt hlaut verðlaunin fyrir bestu dramaþáttaröð og Noah Wyle hreppti verðlaunin fyrir besta leik i aðalhlutverki. Hann var ítrekað tilnefndur fyrir leik sinn í ER á sínum tíma en þetta var í fyrsta sinn sem hann fór heim með verðlaunin.

Noah Wyle, sem var ítrekað tilnefndur fyrir leik sinn í ER, hreppti loksins verðlaunin, fyrir leik sinn í öðru læknadrama.Getty/Kevin Winter

Mestan fögnuð hlaut þáttastjórnandinn Stephen Colbert en á dögunum var tilkynnt um að þáttur hans, The Late Show, yrði lagður niður. Colbert sagðist eitt sinn hafa vonað að þátturinn myndi snúast um ást en skilið það seinna að hann snérist um missi.

Vísaði hann þar til hins pólitíska landslags í Bandaríkjunum og sagðist aldrei hafa unnað landi sínu heitar.

Javier Bardem sýndi stuðning sinn við Palestínumenn.Getty/Michael Buckner

Nokkrir viðstaddra notuðu tækifærið til að koma pólitískum skilaboðum á framfæri. Hannah Einbinder, sem hreppti verðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki fyrir gamanþáttaröðina Hacks endaði þakkarræðu sína á að segja „Fuck Ice og frjáls Palestína“.

Þá mætti Javier Bardem með keffiyeh á rauða dregilinn.

Athygli vakti að aðstandendur Only Murders in the Building, The Bear og The White Lotus fóru tómhentir heim.

Hér má finna lista yfir sigurvegara og aðra tilnefnda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.