Chelsea á toppnum eftir tvo um­deilda dóma

Sindri Sverrisson skrifar
Joao Pedro kom Chelsea í 1-0 rétt áður en flautað var til hálfleiks.
Joao Pedro kom Chelsea í 1-0 rétt áður en flautað var til hálfleiks. Getty/Justin Setterfield

Chelsea og Fulham áttust við í Lundúnaslag í hádeginu, í fyrsta leik spennandi helgar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Chelsea-menn höfðu betur og eru nú á toppi deildarinnar, eftir 2-0 sigur, en Fulham-menn ergja sig eflaust á dómaraákvörðunum eftir þetta fyrsta tap sitt á leiktíðinni.

Hinn 18 ára gamli Joshua King virtist hafa komið Fulham yfir um miðjan fyrri hálfleik, með laglegum hætti, en eftir skoðun á myndbandi var dæmt brot á Rodrigo Muniz fyrir að stíga á Trevoh Chalobah í aðdragandanum. 

Sannarlega umdeildur dómur miðað við viðbrögð á samfélagsmiðlum enda Muniz með boltann þegar hann var álitinn hafa brotið af sér en hann traðkaði augljóslega á fæti Chalobah.

Það var hins vegar Chelsea sem komst yfir, augnabliki áður en flautað var til hálfleiks, þegar Joao Pedro skoraði annan leikinn í röð. Hann skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu Enzo Fernandez.

Chelsea fékk svo víti snemma í seinni hálfleik þegar fyrirgjöf Chalobah fór í hendi Ryan Sessegnon. Dómarinn tók sér langan tíma í að skoða atvikið á myndbandi áður en hann dæmdi víti og aftur töldu Fulham-menn að illa væri farið með þá. Fernandez skoraði úr vítaspyrnunni og kom Chelsea í 2-0.

Fleiri urðu mörkin ekki og Chelsea fagnaði góðum sigri á Brúnni, með nýja manninn Alejandro Garnacho og fleiri í stúkunni.

Chelsea er því komið tímabundið í efsta sæti deildarinnar, með sjö stig eftir þrjá leiki, en Fulham er með tvö stig og bíður eftir sínum fyrsta sigri.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira