Enski boltinn

Nýja Liverpool stjarnan fær sultarlaun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rio Ngumoha faðmar knattspyrnustjórann Arne Slot eftir að strákurinn tryggði Liverpool öll stigin á móti Newcastle á St. James´ Park.
Rio Ngumoha faðmar knattspyrnustjórann Arne Slot eftir að strákurinn tryggði Liverpool öll stigin á móti Newcastle á St. James´ Park. EPA/ADAM VAUGHAN

Nýjasta stjarnan í ensku úrvalsdeildinni, deild sem gerir leikmenn að milljónamæringum, fær í dag mjög léleg laun hjá félaginu. Það er þó skýring á því.

Hinn sextán ára gamli Rio Ngumoha spilaði sinn fyrsta leik á ferlinum í ensku úrvalsdeildinni á mánudagskvöldið og var þá hetja Liverpool.

Ngumoha kom inn á sem varamaður í uppbótatíma og skoraði sigurmark Liverpool á móti Newcastle í púðurtunnunni á St. James´ Park. Markið kom á tíundu mínútu í uppbótatíma og skömmu síðar var flautað til leiksloka.

Rio er án efa framtíðarstjarna í ensku deildinni og fær því örugglega væna og góða samninga í framtíðinni en eins og er þá er hann fá afar léleg laun hjá Liverpool.

Vegna aldurs síns þá má Ngumoha bara gera skólastrákasamning við Liverpool. Það þýðir að Liverpool er bara að borga honum tólf hundruð pund í laun á mánuði samkvæmt The Athletic.

Strákurinn fær því bara tvö hundruð þúsund krónur í laun á mánuði sem dugar engum í dag.

Þetta gæti þó breyst í dag því strákurinn heldur upp á sautján ára afmælið sitt í dag en hann er fæddur 29. ágúst 2008.

Þá má búast við því að Liverpool bjóði stráknum fínan samning og tryggi sér þjónustu hans í langan tíma. 

Margir stuðningsmenn Liverpool vakta eflaust miðla Liverpool í dag til að sjá fréttir um nýjan samning stráksins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×