Stjórnin kallar eftir því að þessari þróun verði snúið við og það verði gripið til aðgerða. Yfirlýsingin er send út með tilvísun í atburði síðustu daga en í gær fóru fram tvenn mótmæli í Reykjavík. Hópurinn Ísland, þvert á flokka boðaði fyrir nokkrum vikum til mótmælafundar á Austurvelli vegna stefnu stjórnvalda í málefnum hælisleitenda. Vegna þessara mótmæla boðuðu samtökin No Borders til annarra mótmæla á sama tíma og sama stað þar sem hvatt var til þess að fólk standi sameinað gegn rasisma og aðskilnaði.
Í yfirlýsinguni minnir stjórnin á að það séu mannréttindi að sækja um alþjóðlega vernd og að allir eigi rétt á því samkvæmt alþjóðalögum að leita skjóls undan ofsóknum í öðru
„Vegna stríðs, átaka, þjóðarmorðs, náttúruhamfara, ofsókna og annarra hörmunga í heiminum hefur fjöldi fólks á flótta aldrei verið meiri en nú og fátt bendir til þess að fólki sem neyðist til þess að flýja heimahaga sína muni fækka á næstu árum,“ segir í yfirlýsingunni.
Stjórnin gagnrýnir þar einnig stefnu stjórnvalda og segja stefnuna hafa einkennst af því síðustu ár að grundvallarréttindi hafi verið skert og kostur fólks til að fá vernd hér hafi verið skertur.
Orðræða fólks í valdastöðum
Þá gagnrýna samtökin orðræðu fólks í valdastöðum í garð flóttafólks.
„…hvort sem það er hjá ráðherrum og þingfólki, hjá embætti ríkissaksóknara, lögreglu eða innan dómskerfisins, er með þeim hætti að hún elur ítrekað á ótta og andúð í garð flóttafólks valdeflist almenningur í fyrirlitningu sinni og hatri, sem í sumum tilfellum verður til þess að fólk er beitt ofbeldi vegna þjóðernisuppruna og þjóðfélagsstöðu. Það er gömul saga og ný að fólk sé tilbúið til þess að ala á ótta og hatri í garð jaðarsettra hópa til að ná völdum eða viðhalda þeim. Í dag er það einnig vinsæl leið til þess að marka sér stöðu á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og stjórnmálum. Það er hættuleg þróun.“
Stjórnin lýsir yfir miklum áhyggjum af þessari þróun og kalla eftir samtali um hvernig megi auka samkennd, samtal á milli ólíkra hópa og sporna þannig gegn vaxandi fordómum og hatri í garð fólks á flótta sem leitað hefur til okkar eftir skjóli og vernd.