Undanfarið hafa Grindvíkingar unnið að því að gera Stakkavíkurvöll kláran eftir að hafa fengið grænt ljós frá yfirvöldum sem og Knattspyrnusambandi Íslands að öruggt sé að leikir fari þar fram. Þá stefnir körfuboltalið bæjarins á að spila eitthvað af heimaleikjum sínum í Grindavík á næstu leiktíð.
Það var því blásið til veislu þegar Fjölnir mætti í heimsókn en gestirnir úr Grafarvogi virtust ekki hafa fengið minnisblaðið um að dagurinn ætti að vera sem eftirminnilegastur fyrir gula Grindvíkinga.
Rafael Máni Þrastarson kom gestunum yfir strax á fyrstu mínútu leiksins. Ármann Ingi Finnbogason jafnaði á 9. mínútu og stefndi í sannkallaðan markaleik. Rafael Máni kom gestunum yfir á nýjan leik aðeins fjórum mínútum síðar en það reyndist síðasta mark fyrri hálfleiks, staðan að honum loknum 1-2.
Adam Árni Róbertsson steig hins vegar upp í síðari hálfleik og reyndist hetja heimamanna. Hann jafnaði metin á 52. mínútu og skoraði það sem reyndist sigurmarkið á 65. mínútu leiksins. Hilmar Elís Hilmarsson fékk að líta rauða spjaldið í liði gestanna þegar þrjár mínútur voru til loka venjulegs leiktíma.
Manni færri gerðu gestirnir sér lítið fyrir og jöfnuðu metin. Þar var að verki varamaðurinn Kristófer Dagur Arnarsson. Lokatölur 3-3 og bæði lið með eitt stig að loknum tveimur umferðum eftir tap í 1. umferð. Þá vann Njarðvík öruggan 5-1 sigur þegar nýliðar Völsungs komu í heimsókn.
Markaskorarar fengnir af Fótbolti.net.