Albert byrjaði í naumu tapi í Anda­lúsíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert í leik kvöldsins.
Albert í leik kvöldsins. EPA-EFE/JULIO MUNOZ

Real Betis lagði Albert Guðmundsson og félaga í Fiorentina í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Sambandsdeildar Evrópu á Benito Villamarín-vellinum í Sevilla.

Landsliðsmaðurinn Albert var í byrjunarliði Fiorentina en gestirnir voru lentir marki undir eftir aðeins sex mínútur. Abde Ezzalzouli með markið eftir undirbúning hins reynda Cedric Bakambu. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.

Lánsmaðurinn Antony tvöfaldaði forystu Betis í síðari hálfleik en spænska félagið vonast til að festa kaup á vængmanninum frá Brasilíu í sumar.  Luca Ranieri minnkaði muninn fyrir gestina ekki löngu síðar en mörkin urðu hins vegar ekki fleiri. Lokatölur 2-1 og Betis með forystuna fyrir síðari leik liðanna sem fer fram að viku liðinni.

Albert var tekinn af velli á 84. mínútu leiksins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira