Þann 11. apríl breytti enska knattspyrnusambandið reglum fyrir trans konur sem vildu spila í kvennaflokki. Þær máttu halda áfram að spila ef þær uppfylltu ákveðin skilyrði, til dæmis varðandi magn testósteróns í líkamanum. Þá þurftu þær að leggja fram gögn um hormónameðferð.
En eftir úrskurð hæstaréttar Bretlands um trans konur breytti enska knattspyrnusambandið reglum sínum á ný. Samkvæmt hæstarétti Bretlands eru kynin aðeins tvö í skilningi jafnréttislaga og gengið er út frá „líffræðilegu“ kyni fólks.
„Þetta er flókið mál og okkar staða hefur alltaf verið sú að ef það verða breytingar á lögum, vísindum eða hvernig stefnunni er framfylgt í grasrótarfótboltanum myndum við skoða það og breyta ef þess þyrfti,“ segir í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu.
„Við erum meðvituð um að þetta verður erfitt fyrir fólk sem vill einfaldlega spila leikinn sem það elskar í því kyni sem það skilgreinir sig. Við ætlum að setja okkur í samband við trans konurnar sem eru að spila til að útskýra breytingarnar og fara yfir hvernig þær geta haldið áfram að vera hluti af leiknum.“
Í síðasta mánuði greindi enska knattspyrnusambandið frá því að tuttugu trans konur væru í hópi þeirra milljóna áhugamanna sem spila fótbolta á Bretlandi. Engin trans kona er í atvinnumannadeildunum á Bretlandi.