Leikþjálfunarfyrirtækið Actors Audition Studios, sem Lincoln stofnaði, greindi frá því í tilkynningu að Lincoln hefði dáið á þriðjudag.
„Yfir 45 ára feril skildi Lar eftir ógleymalegan blett á Hollywood gegnum „dýnamískar“ frammistöður sínar og hollustu við að þjálfa upprennandi leikara,“ sagði í tilkynningu fyrirtækisins.
Lar Park Lincoln, upphaflega Laurie Jill Parker, fæddist 12. maí 1961 í Dallas, Texas. Hún hóf leiklistarferil sinn í CBS-sjónvarpsmyndinni Children of the Night (1985) og lék alveg þar til hún lést. Ferill hennar spannaði því rúmlega fjörutíu ár en hún varð þekktust fyrir leik sinn í hryllingsmyndum.

Hún lék síðan í The Princess Academy (1987) og House II: The Second Story (1987) áður en hún lék Tinu Shepard í Friday the 13th Part VII: The New Blood (1988) sem er hennar þekktasta hlutverk. Vegna þess hlutverks hefur hún verið flokkuð í hóp öskurdrottninga (e. scream queen).
Lar lék síðan í nokkrum þáttaröðum af sápuóperunni Knots Landing frá lokum níunda áratugarins og til upphafs þess tíunda. Eftir að hún hætti þar lék hún ýmis gestahlutverk í Murder, She Wrote, Space: Above and Beyond og Beverly Hills, 90210.
Hún gaf út bókina Get Started, Not Scammed (2008) um feril sinn í Hollywood, stofnaði fyrirtækið Actors Audition Studios og sá um að þjálfa upprennandi leikara síðustu ár sín. Síðustu þrjár myndirnar sem Lar lék í eiga enn eftir að koma út.
Lincoln skilur eftir sig dótturina Piper, soninn Trevor, systkinin Karen og Michael og barnabörnin Auru, Benjamin, Jack og Miu Grace. Eiginmaður hennar Michael Park Lincoln lést 43 ára úr krabbameini árið 2015.