Miðasala hófst klukkan 13:00 í gær og aðeins örfáum klukkustundum síðar höfðu miðar eyrnamerktir hvoru liði fyrir sig selst upp. Stór hluti fór þá í almenna sölu en þeir miðar voru uppseldir í gærkvöld.
Sé litið á leikinn í miðasöluforritinu Stubbi má sjá að engir miðar eru til sölu. Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, staðfesti í samtali við Vísi að uppselt sé á leikinn.
KR og Valur fengu hvort um sig 600 miða, auk 25 boðsmiða hvort lið. Um 350 miðar fóru til KKÍ og samstarfsaðila og rest í almenna sölu.
1.825 miðar hafa selst í heildina, sem er hámarksfjöldi fólks sem leyfilegt er að komi saman í Smáranum, þar sem úrslitaleikurinn fer fram.
Enn er töluvert af lausum miðum á úrslitaleik kvenna, milli Grindavíkur og Njarðvíkur, sem fram fer klukkan 13:30 í Smáranum á morgun.
Leikur KR og Vals hefst klukkan 16:30.