Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Rögnu Kristínar Guðbrandsdóttur, læknis og doktorsnema. Hún kynnti rannsóknina á læknadögum sem nú fara fram. Hún segir að kveikjan að rannsókninni sé sú mikla aukning á ávísunum ADHD-lyfja til fullorðinna á síðustu árum. Hún skoðaði lyfjanotkunina í samhengi við innlagnir á geðdeildir vegna maníu eða geðrofa innan árs frá töku ADHD-lyfjanna.
„Við sáum það í minni rannsókn - og aðrar rannsóknir hafa sýnt það einnig - að geðrof og maníur eru tiltölulega sjaldgæfar aukaverkanir þessara lyfja og almennt er talið að hættan sé svona 0,1-1% við notkun á lyfjunum. Við sáum það í okkar rannsókn að hættan á geðrofi og maníu í kjölfar þessara lyfja er 0,38% eða einn af hverjum 264 sem byrjar á lyfjunum fer í fyrsta geðrofið eða maníuna innan árs frá því þeir hófu meðferð. Fólk sem hefur enga fyrri sögu um geðrof eða maníu og byrjar síðan á lyfjunum og fer í geðrof eða maníu og þarf að leggjast inn á spítala þannig að þetta eru talsvert alvarleg veikindi innan árs frá því þeir hófu meðferð á lyfjunum,“ segir Ragna.
Læknar verði að horfa til fjölskyldusögu skjólstæðinga
Ragna bindur vonir við að rannsóknin opni augu fólks gagnvart þessari sjaldgæfu en alvarlegu aukaverkun og að læknar muni í auknum mæli líta til fjölskyldusögu skjólstæðings um geðrof áður en ákvörðun er tekin um ávísun.
„Að okkar mati þá mætti gera betur í þessum efnum og fyrsta skrefið er að læknar og einstaklingar sem fara á þessi lyf séu meðvitaðir um þennan möguleika á að þessar aukaverkanir komi fram og þá þarf að vega og meta gagnsemi lyfjanna miðað við áhættuna sem hlýst af því að skrifa upp á þau og þá sérstaklega mikilvægt að þeir einstaklingar sem hafa fyrri sögu um geðrof eða maníu eða fjölskyldusögu eða eitthvað slíkt að það sé farið mjög varlega í ávísunum á þessum lyfjum til þeirra.“