Innlent

Glæpa­hópar horfa til ís­lenskra barna og of­beldis­verk til sölu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sunna Sæmundsdóttir les kvöldfréttir í kvöld.
Sunna Sæmundsdóttir les kvöldfréttir í kvöld. vísir

Dæmi eru um að glæpahópar reyni að fá íslensk börn til liðs við sig, í því skyni að fá þau til að fremja glæpi. Framkvæmdastjóri Europol segir viðgangast hér, líkt og annars staðar, að ofbeldisverk og aðrir glæpir séu framin gegn greiðslu.

Mennta- og barnamálaráðherra segir meðferðarúrræði fyrir börn og ungmenni hafa verið í ólestri alltof lengi. Hann leggur áherslu á að klára endurskoðun á slíkri starfsemi sem allra fyrst og hefur heimsótt nokkur meðferðarheimili nú þegar.

Allt að fjörutíu milljarðar króna streyma úr landi til erlendra veðmálasíðna á hverju ári. Mögulegar tekjur ríkissjóðs af netspiluninni er ellefu milljarðar. Happdrætti Háskóla Íslands kallar eftir lögleiðingu netspilunar.

Ekið var á tvo unga drengi á gangbraut í Laugarneshverfi þar sem lengi hefur verið kallað eftir gönguljósum. Mánuður er síðan síðast var ekið á barn á sama stað. Við ræðum við sjónarvott að slysinu og ræðum við fulltrúa foreldra í hverfinu í beinni.

Við kynnum okkur þá heljarinnar brúarsmíði við Breiðholtsbraut og hittum fyrirtækjarekanda sem er nýmættur með rekstur sinn til Grindavíkur, og líkar vel.

Í sportinu verður rætt við Björn Daníel Sverrisson, sem er nýtekinn við þjálfun Sindra á Höfn í Hornafirði. Hann segist hafa lagt mikið á sig til að sannfæra eiginkonu sína um að koma með.

Og í Íslandi í dag hittir Magnús Hlynur Íslendinga sem bera sjaldgæf og áhugaverð nöfn. Þar hittir hann meðal annars fyrir Skeggja, Femu, Kveldúlf og Sabínu.

Þetta og fleira í kvöldfréttum Sýnar í opinni dagskrá á samtengdum rásum Sýnar, Vísis og Bylgjunnar á slaginu 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×