Innlent

Fékk krampa og drapst vegna fugla­flensu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Magnús Jochum Pálsson skrifa
Ragnheiður og Karen þurfa öryggisins vegna að fara að fara í sýnatöku hjá Heilsugæslunni þar sem þær voru nálægt veikum ketti.
Ragnheiður og Karen þurfa öryggisins vegna að fara að fara í sýnatöku hjá Heilsugæslunni þar sem þær voru nálægt veikum ketti. Vísir/Einar

Kettlingur sem drapst hér á landi er fyrsta heimilisdýrið á heimsvísu sem greinist með skætt afbrigði fuglaflensu. Læðan sem kettlingurinn var undan og annar kettlingur úr sama goti drápust líka. Fólki sem sá um veiku dýrin hefur verið gert að fara í sýnatöku.

Mast hefur vakið athygli á að skætt afbrigði fuglaflensu, svo kallað H5N5, hafi greinst í kettlingi hér á landi og er það í fyrsta skipti í heiminum sem það greinist í heimilisdýri, samkvæmt Alþjóðadýraheilbrigðisstofnun. 

Læðan sem kettlingurinn var undan og annar kettlingur úr sama goti drápust líka eftir stutt veikindi en voru ekki krufin. Talið er að kettirnir hafi sýkst af veikum fugli. Alls hafa ellefu villtir fuglar greinst með sama afbrigði á landinu síðustu mánuði þar af ríflega helmingur á höfuðborgarsvæðinu. 

MAST tekur fram að smithætta fyrir fólk af þessu afbrigði sé lítil þar sem engin tilfelli um smit úr spendýrum eða fuglum yfir í fólk hafi verið tilkynnt. Hér fyrir neðan má sjá viðtal fréttastofu við kattareigendur og í kjölfar þess viðtal við yfirdýralækni Mast.

Varð slöpp degi eftir komuna á heimilið

Kettlingurinn Dimma fæddist á Ísafirði og kom til nýs eiganda síns í Reykjavík um miðjan desember.

„Hún kom hérna til okkar hoppandi og skoppandi, algjör prinsessa og féll algjörlega inn í fjölskylduna,“ segir Karen Dagmar Guðmundsdóttir, eigandi Dimmu.

Dimma fékk mikla krampa áður en hún drapst.

Um sólahring síðar byrjaði Dimma að vera slöpp og líða illa.

„Ég fer með hana daginn eftir yfir til dóttur minnar því hún á læðu,“ segir Karen.

Kettlingurinn hélt áfram að veikjast og þær fóru með hana til dýralæknis sem gaf henni sýklalyf.

„Ég hjúkraði henni og reyndi allt sem ég gat en um ellefuleytið 22. [desember] þá byrjar hún að krampa og skjálfa, sem jókst og jókst. Það voru bara nokkrar mínútur á milli þar til þetta voru orðnir sex mínútna krampar og hún lést svo,“ segir hún.

Mamman og systirin drápust líka

Karen frétti svo af því að því að læðan sem gaut Dimmu á Ísafirði hefði líka drepist og annar kettlingur úr gotinu.

„Systir hennar dó daginn áður, 21. desember, og mamma hennar 20. úr sömu einkennum. Okkur fannst það mjög óeðlilegt,“ segir Karen.

Hún fór því með hræið af Dimmu og óskaði eftir krufningu á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Keldum. Þar kom svo í ljós þann 6. janúar að kettlingurinn hafði drepist úr fuglaflensu.

Ragnheiður og Karen með öðrum af tveimur köttum Ragnheiðar sem eru báðir hressir þrátt fyrir að hafa umgengist kettlinginn veika.

„Ég er rosalega ánægð að ég hélt því til streitu að fara með hana í krufningu,“ segir hún.

Karen og Ragnheiður þurfa öryggisins vegna að fara að fara í sýnatöku hjá Heilsugæslunni þar sem þær voru nálægt veikum ketti. Börn sem komu nálægt kisunum eru í smitgát.

„Ég fékk símtal um að ég ætti að koma í sýnatöku í fyrramálið því ég sé útsett þar sem hún dó í fanginu á mér. Þeir eru búnir að taka sýni fyrir vestan af hjónunum sem sáu um læðuna og systurina. Svo bíðum við eftir niðurstöðum úr því,“ segir Karen.

Sjokk og stress

Ragnheiður sem á tvo ketti sem hittu Dimmu segir þá heilbrigða og hún haldi þeim inni í samráði við MAST þar til annað sé leyft en ástandið taki þó óneitanlega á.

„Þetta er búið að vera sjokk og stress en kisurnar mínar eru sem betur fer heilbrigðar,“ segir Ragnheiður.

Þær vilja koma skilaboðum til gæludýraeigenda

„Þú átt ekki að hafa þau eftirlitslaus og leyfa þeim að þefa af öllu og smakka allt,“ segir Karen.


Tengdar fréttir

„Það er engin hætta á því að kaupa kalkún“

„Sem betur fer hefur þetta bara komið upp í einu húsi og alifuglabændur viðhafa almennt mjög miklar smitvarnir og hafa verið á tánum vegna þessara greininga í villtum fugli. Við erum að vonast til þess að smitvarnirnar haldi svo þetta komi ekki upp í fleiri búum. Það getur auðvitað gerst. Ef þetta yrði mjög útbreitt þá gæti komið upp sú staða að það myndi hafa áhrif á markaðinn.“ 

Skæð fuglaflensa fannst í kalkúnum í Ölfusi

Skæð fuglaflensa af gerðinni H5N5 var staðfest í alifuglum í Ölfusi í dag. Undirbúningur fyrir aflífun fuglanna er hafin og á að beita sóttvarnarráðstöfunum til að reyna að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×