Lífið

Jeff Baena eigin­maður Aubrey Plaza látinn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Baena og Plaza gengu í hjónaband árið 2021. 
Baena og Plaza gengu í hjónaband árið 2021.  Getty

Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Jeff Baena, eiginmaður leikkonunnar Aubrey Plaza, er látinn, 47 ára að aldri. 

Bandaríski miðillinn Tmz greinir frá þessu. Baena er þekktastur fyrir kvikmyndir sínar Life After Beth, The Little Hours og Joshy. Þá hefur hann unnið með leikstjórunum Robert Zemeckis og David O. Russell, þar á meðal við myndina I Heart Huckabees með Dustin Hoffman og Lily Tomlin í aðalhlutverkum. 

Baena kvæntist leikkonunni Aubrey Plaza árið 2021 eftir tíu ára samband. Hún er þekktust fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttaröðunum Parks and Recreation, The White Lotus og Emily the Criminal. 

Tmz hefur eftir heimildum lögreglu að Baena hafi fundist látinn á heimili sínu í gærmorgun. Ekki sé grunur um að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti. Andlát Baena sé til rannsóknar en grunur sé um að hann hafi svipt sig lífi. 

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólk með sjálfsvígshugsanir getur hringt í Pieta-samtökin. Píeta síminn er opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.