Justin James þreytti frumraun sína með Álftanesi gegn Hetti síðastliðið fimmtudagskvöld og þrátt fyrir að hafa skotið boltanum ágætlega fyrir innan þriggjastiga línuna og skilað 15 stigum í hús þá voru aðrir og neikvæðari tölfræðiþættir sem stóðu upp úr.
James var með sex tapaða bolta í leiknum, fimm villur og hitti ekki úr einu einasta þriggjastiga skoti í sjö tilraunum. Þá var hann í mínus 15 í +/- tölfræði liðsins.
Stattnördarnir á Facebook köfuðu ofan í þessa tölfræði og fundu ekki aðra eins frumraun en höfðu þó upp á tveimur frammistöðu með keimlíka tölfræði.
Jón Arnar Ingvarsson, fékk 5 villur, tapaði 7 boltum og hitti ekki úr neinu af 7 þriggja stiga skotum sínum í þegar Haukar töpuðu gegn Grindavík 1. mars 1992 og þann 13. febrúar 2011 fékk Dragoljub Kitanovci, sem þá var leikmaður Tindastóls 5 villur, tapaði 6 boltum og hitti ekki úr neinu af 7 þriggja stiga skotum sínum í tapi gegn Hamri.