Þann 25. nóvember 2021 staðfestu mikill meirihluti nýkjörinna þingmanna eigin kjörbréf þar sem stuðst var við umdeilda endurtalningu í Norðvesturkjördæmi.
Þar hafði framkvæmdin meðal annars innihaldið eftirfarandi:
- Óviðunandi frágangur kjörgagna eftir að yfirlýstar lokatölur höfðu verið tilkynntar frá Norðvesturkjördæmi.
- Óviðunandi og losaralegar aðgengistakmarkanir að því marki að tilvik voru um að fólk færi þar inn í engra viðurvist frá nótt/morgni og fram á hádegi daginn eftir kosningar.
- Formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis mætti kringum hádegið hálftíma á undan öðrum meðlimum yfirkjörstjórnar í rýmið sem geymdi óinnsiglaða atkvæðaseðla kjördæmisins.
- Formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis var einsamall í rýminu að handleika atkvæðaseðla þegar næsti meðlimur yfirkjörstjórnar mætti á svæðið.
- Formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis kallaði til endurtalningar sem hafði áhrif á uppröðun jöfnunarþingsæta og riðlaði þar með hvaða einstaklingar hlutu þingsæti, þar sem 5 duttu út og aðrir 5 komust inn.
- Fækkun atkvæða til Viðreisnar um 9 kom jöfnunarþingsætatilfærslunni af stað, en milli fyrri lokatalna og endurtalningar fækkaði m.a. auðum atkvæðaseðlum um 12 og ógildum seðlum fjölgaði um 11.
Með staðfestingu þingmanna á kjörbréfum sínum þar sem á bak við lá þessi framkvæmd lögleysuendurtalningar settu þingmenn ákveðið fordæmi.
Sett var fordæmi að svona framkvæmd þyki góð og gild hér á Íslandi.
Framkvæmd þyki góð og gild þar sem ein manneskja undir engu eftirliti ver hálftíma með óinnsigluðum kjörgögnum heils kjördæmis vitandi allar lokatölur kosninganna, handleikur þar kjörseðla, kallar svo upp á sitt einsdæmi til endurtalningar sem breytir hvaða frambjóðendur hljóti kjörgengi.
Meðal þeirra sem settu þetta fordæmi er Katrín Jakobsdóttir sem er nú í forsetaframboði.
Henni þyki þessi framkvæmd góð og gild.
Það hefur hún aldrei sagt og mun vafalaust aldrei segja.
En það sýndi hún með sinni afstöðu og sínum verkum í Alþingishúsinu þann 25. nóvember 2021 þegar hún og meirihluti nýkjörinna þingmanna lögðu þennan smánarblett á sögu íslensks lýðræðis.
Höfundur er í hópi þeirra sem kærðu þingkosningarnar 2021 til kjörbréfanefndar og reyndi að beita sér fyrir lýðræðislegri lendingu þessa máls.